MARGRÉT H. BLÖNDAL

MARGRÉT H. BLÖNDAL Aerotics / Loftleikur 3. september – 10. október 2020

Margret H. Blöndal sjá biografi sjá hér

Í dag opnar sýning Margrétar H. Blöndal, Aerotics / Loftleikur. Í ljósi aðstæðna verður opnunartíminn rýmri eða á milli klukkan 16 og 19 og verður þess gætt að ekki séu of margir inni í einu. Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á eftir. „Verk mín eru rýmisverk. Ég vinn þvert á miðla og form. Stundum sný ég á miðilinn, nálgast skúlptúrana sem teikningar og teikningarnar sem skúlptúra. Texti verður rammi, orðin skilgreina rými og gera mér kleift að spyrna við – svo ég svífi ekki í lausu lofti. Mér finnst hrífandi að lesa texta þar sem ég finn hrynjandina. Setningar sem innihalda klifun og þunga undiröldu veita mér viðnám. Orð geta verið hnit sem loft leikur um. Ég skynja tilveruna sem allsherjarrými, í því eru smærri hólf og eindir sem stöðugt eru á hreyfingu. Vörður eru lífsnauðsynlegar, ekki eingöngu til að komast frá einum stað til annars heldur og einnig til að henda reiður á tilverunni, fá tækifæri til að setjast niður og draga inn andann. Sumar setningar auka rýmiskenndina, aðrar færa mann milli tíða. Svo eru einstaka orð sem eru sett saman þannig að mann langar til að bragða á þeim aftur og aftur. Mér er ómögulegt að sjá fyrir hvað kemur til með að gerast inni í sýningarsalnum og undirbúningurinn er margvíslegur. Innsetningin verður til sem viðbragð við rýminu. Ég get ekki gert þrívítt verk án tengingar við rými – verkið getur átt framhaldslíf eftir sýninguna sem það var sprottið úr en rýmið er kveikjan, rétt eins og ljósmyndir eru kveikjan fyrir teikningarnar. Þær eru akkeri, haldreipi fyrir augað. Þaðan er hægt að sveifla sér í þá átt sem pensillinn togar. Sambland af lit, vatni og olíu verður efnisveita og augað nemur línur, rúmtak og hrynfall. Í teikningunum leysast fyrirmyndirnar upp og verða að úníversal eigindum sem hægt er að greina í plöntum, dýrum, jöklum, fljótum, djásnum, drasli, vefnaði – öllum skapnaði – í míkró jafnt sem makró heimi. Ég gleymi hvað ég var að horfa á þegar teikningin er tilbúin en ljósmyndirnar eru áfram til og verða stundum að sjálfstæðum verkum. Innsetningarnar eru samsettar úr nokkrum einingum þar sem hver eining er hluti af órjúfanlegri heild í rýminu og þar skiptast á hljómar og þagnir; loft, tikk og leikur. Ég á bland í poka frá ólíkum skeiðum og stöðum á jarðkringlunni. Sarp sem í hafa safnast snifsi frá öðrum sýningum auk nýlegri uppsprettna. Ég vel efni út frá eiginleikum þess. Litur er veigamikill þáttur, viðkoman já, eitthvað sem hægt er að bíta í, klípa, klippa, kroppa, líma, nudda, negla, rífa, hnýta, strjúka, slíta, staga og teygja. Táknræn merking nei, því þá þrengi ég stakkinn og set hugsunina framar möguleikunum. Persónulegar vísanir og minningar koma eftir á. Í upphafi innsetningarferlisins nýti ég sarpinn en svo þarf ég að finna fyrir sýningarsalnum, koma honum fyrir innan í mér og þá er pláss fyrir eitthvað nýtt – óþekkt og óhlýðið. Ég er ófær um að yfirfæra minningu í verk en með því að meðhöndla efni yfirfærist margt sem mér er hulið. Réttara væri að segja hulið hugsuninni því önnur einbeiting tekur yfir og nær að koma verkinu í form – svo sem virðist af sjálfsdáðum. Ef ég er tengd þá finnur efnið mig og nemur sér samastað í rýminu. Ég valdi mér myndlistina sem tjáningarform, ég valdi þann stað þar sem orðunum sleppir. Í ferli verksins verð ég málhölt, skynjunin hverfist frá einni svipmynd til annarrar og ég verð að loka augunum því ég ræð ekki við hliðstæðurnar í kringum mig.“

Skrif þessi eru sprottin úr nýlegum samtölum Margrétar við Ingólf Arnarsson myndlistarmann

Sjá fleiri greinar um íslenska myndlist klikka hér

RELATED LOCAL SERVICES