Kasper, Jesper og Jónatan, Soffía frænka, ljónið, Bastían bæjarfógeti, Tobías í turninum, Kamilla, rakarinn, bakarinn… persónugalleríið er litríkt í leikriti norska höfundarins Thorbjörns Egner (1912-1990), sem ekki bara samdi leikritið Kardemommubæinn, heldur samdi hann líka tónlistina og gerði leikmynd og búninga. Í tilefni af því að 65 ár voru liðin frá frumsýningu Kardemommubæjarins árið 2020 var sett upp sýning á myndum Egners í Norræna húsinu, í samstarfi við Norska sendiráðið á Íslandi. Borgarbókasafnið í Spönginni fær góðfúslegt leyfi sendiráðsins til að sýna myndirnar í sumar. Þjóðleikhúsið sýnir leikritið um þessar mundir, sjá hér
“Allt frá barnæsku lifði Egner í heimi sagna, myndlistar, tónlistar og leiklistar, eða eins og hann sagði sjálfur: „Að yrkja ljóð og vísur og leika tónlist og teikna og mála og setja upp leikrit er það sem ég hef haft mest gaman af allt frá því að ég man eftir mér, ég hef kannski alltaf verið nokkurs konar „klifurmús“.“ (úr leikskrá Þjóðleikhússins, Melkorka Tekla Ólafsdóttir). Sýningin er á dagskrá Barnamenningarhátíðar.