ELEKTRA ENSEMBLE

Hljóðön – ELEKTRA ENSEMBLE
Sunnudaginn 21. nóvember kl. 20

Sunnudaginn 21. nóvember kl. 20 fara fram tónleikar Elektra Ensemble innan tónleikaraðar Hafnarborgar, Hljóðana.

Á efnisskránni er frumflutningur þriggja nýrra verka sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hópinn. Þeirra á meðal er nýtt samsköpunarverk Áslaugar Magnúsdóttur, Miu Ghabarou og Selmu Reynisdóttur, Din larmande loneliness is like smerte i mit hjerte, sem samið er sérstaklega í tilefni tónleikanna og innblásið er af höggmyndum og ástleysi, sem eiga það sameiginlegt að hafa hvorki upphaf né endi. Frumflutt verða ný verk eftir Gunnars Andreas Kristinsson og Jesper Pedersen ásamt því sem hópurinn flytur nýlegt verk Sóleyjar Stefánsdóttur, Ills vitar, frá árinu 2020.

Tónlistarhópurinn ELEKTRA ENSEMBLE er skipaður fimm framúrskarandi tónlistarkonum. Í hópnum eru Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari, Helga Björg Arnardóttir klarinettuleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari og Margrét Árnadóttir sellóleikari. Hópurinn, sem var stofnaður árið 2008, var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009 og gekk í kjölfarið til samstarfs við Listasafn Reykjavíkur um tónleikaröð á Kjarvalsstöðum sem stóð frá árinu 2009 til 2015.

Elektra Ensemble hefur hlotið góðar viðtökur og mikið lof gagnrýnenda fyrir tónleika sína auk þess sem RÚV hefur margsinnis hljóðritað leik hópsins. Hópurinn var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 og tilnefndur sem flytjandi ársins árið 2020. Helstu verkefni Elektra Ensemble hafa verið tónleikaröð á Kjarvalsstöðum, tónlistarflutningur á Myrkum músíkdögum, Kirkjulistahátíð, Óperudögum í Kópavogi, Sumartónleikum í Skálholti, Halland Opera and Vocal Festival í Svíþjóð, í BOZAR-tónleikahöllinni í Brussel og á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum. Auk þess að flytja helstu perlur tónbókmenntanna leggur hópurinn mikla rækt við frumflutning nýrra verka. Í tilefni af 10 ára starfsafmæli Elektra Ensemble gaf hópurinn út hljómplötu með verkum sem samin hafa verið fyrir hópinn.

Samtímatónleikaröð Hafnarborgar, Hljóðön, er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir, en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan 2013.

Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.

Fjöldi áhorfenda takmarkast við 50 manns og grímuskylda er á tónleikana.

RELATED LOCAL SERVICES