Tíunda Sequences myndlistarhátiðin

 

Kominn tími til – Tíunda Sequences myndlistarhátiðin

Tíunda Sequences myndlistarhátiðin verður sett í dag þegar gjörningurinn Sköpunarsögur eftir Elísabetu K. Jökulsdóttur verður fluttur í Veröld – Húsi Vigdísar kl. 17:00. Að því loknu tekur við fjölbreytt dagskrá víða um borg og á landsbyggðinni. Hátíðin stendur til 24.október og er frítt á alla viðburði.

Hópur listamanna hefur unnið ný verk fyrir Sequences X – Kominn tími til enda er eitt af markmiðum hátíðarinnar að næra grasrótina og ýta undir framsækna myndlist í sem víðustum skilningi. Hátíðin fer fram víða um borg m.a í Þjóðskjalasafninu þar sem fer fram fyrirlestrargjörningur. Í Flæði gallerí á Vesturgötu fer fram málstofa, listasmiðjur og frumsýning á nýju vídeóverki, þá verða tónleikar í Hafnarborg, frumsýningar á nýjum verkum í Bíó Paradís, 24 klukkustunda vörpun í Tjarnarbíó og útgáfa og uppskeruhátíð í Post-húsinu í Skeljanesi. Á Granda fer fram samsýning í Marshallhúsinu, sem hýsir Kling & Bang og Nýlistasafnið, þá fer fram gjörningur í listamannarekna rýminu OPEN og í ELKO verður til sýnis og sölu kvíðastillandi belti. Hátíðin teygir einnig anga sína út fyrir borgarmörkin; til Hveragerðis, Seyðisfjarðar, Akureyrar og Ísafjarðar þar sem unnið er með hugtök eins og rómantík, sannleika, óendanleika og vináttu. Á dagskrá hátíðarinnar eru hátt í fjörutíu viðburðir með þáttöku um fimmtíu listamanna frá öllum heimshornum.

Heiðurslistamaður Sequences X – Kominn tími til er Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Elísabet hefur þá hæfileika að geta spunnið þræði á milli ólíkra listforma og notar rödd sína til þess að segja hlutina hispurslaust, en jafnframt minnir okkur á töfrana.

Elísabet býr yfir tungumáli gyðjunnar og birtist okkur í ólíkum myndum; skapar og eyðir til skiptis, er utan og innan við og leikur sér að því að dansa á línunni þar á milli. Í verkum sínum er Elísabet greinandi á eigið sjálf og þjóðarinnar og tekst á við hið útópíska hlutverk listarinnar sem hreyfandi afli í samfélaginu. Liggur styrkur hennar í því lifandi og margbreytilega sambandi sem hún á við áhorfendur og áheyrendur sína, þar sem hún sjálf er sem almenningslistaverk sem stöðugt hreyfir við hugmyndum samfélagsins og hreyfir þannig við tímanum og tekur þátt í hinni eilífu endursköpun heimsins.

„Það er yfirleitt ekki tekið fram í sköpunarsögum trúarbragðanna að verið sé að skapa heim í fyrsta sinn. […] En á meðan annað er ekki tekið fram má hugsa sér að verið sé að skapa heiminn uppá nýtt en ekki nýjan heim. Kannski var heimurinn búinn að skapast og eyðast svo oft að það þótti við hæfi að skrifa það niður, og þá tók því ekki að segja: Í hundraðasta sinn var tóm…“  

– Elísabet Kristín Jökulsdóttir

Sequences biður ykkur vel að njóta, enda kominn tími til!

 

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0