Hópur fólks fyrir utan býlið Sunnuhvol um 1920.  Ekki er vitað við hvaða tilefni myndin var tekin.(Ljósmynd: Ólafur Magnússon)

Sunnuhvoll

Bæjarhús Sunnuhvols sjást hér neðst á loftmynd frá 1930. Litlu ofar er Ölgerðin Þór nálægt á horni Rauðarárstígs og Háteigsvegar (Rauðarárstígur 39). Gasstöðin við Hverfisgötu sést lengst til hægri á myndinni og  Sundhöll Reykjavíkur ofarlega til vinstri (í byggingu). (Ljósmynd: Loftur Guðmundsson)Bújarðir í Reykjavík

Í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. var farið að ræsa fram mýrarnar í landi Reykjavíkur og úthluta úr þeim ræktunarlöndum. Þessi lönd voru leigð með erfðafesturétti, sem þýðir að leigan gekk í erfðir. Á erfðafestulöndunum risu nýbýli þar sem hafin var túnrækt og búskapur í stórum og smáum stíl. Á Norðurmýrarblettum, sem úthlutað var í Norðurmýri og á svæðinu milli Rauðarárholts og Öskjuhlíðar, risu allmörg erfðafestubýli. Tvö þeirra, Sunnuhvoll og Háteigur, voru hér í sunnan- og vestanverðu Rauðarárholti.

Bæjarhús Sunnuhvols stóðu hér lítið eitt ofar, þar sem nú eru gatnamót Háteigsvegar og Þverholts. Pétur Hjaltested úrsmiður (1867-1953) fékk landið á erfðafestu árið 1891 og byggði upp fyrirmyndarbújörð þar sem áður var grjótholt og mómýri. Pétur beitti ýmsum nýjungum við túnagerð og framkvæmdir á landinu og lagði þar meðal annars lokræsi og vatnsveitu. Árið 1902 lét hann ásamt fleirum gera veg frá Laugavegi suður að Sunnuhvoli sem nefndur var Rauðarárstígur. Árið 1906 var Pétur búinn að reisa á landinu mikinn húsakost og voru húsin byggð umhverfis ferhyrnt garðsvæði. Íbúðarhúsið var reisulegt timburhús í nýklassískum stíl og sneri framhlið að Rauðarárstíg. Það var búið ýmsum þægindum sem þá voru sjaldgæf hér á landi, svo sem vatnssalerni og baðkeri, en vatnsleiðsla var lögð í húsið og skolpleiðsla frá því. Í húsinu mun einnig hafa verið stærsta eldavél sem þá hafði verið flutt til landsins. Jarðabætur Péturs og húsakynni vöktu aðdáun og athygli samtímamanna hans og þótti við hæfi að sýna þau erlendum tignarmönnum sem komu til landsins. Pétur brá búi árið 1933 en búskapur var áfram rekinn á Sunnuhvoli um nokkurt skeið. Á 3. og 4. áratugnum byggðist upp ýmiskonar iðnaður í nágrenni Sunnuhvols, vestan og norðan í Rauðarárholti og á árum seinna stríðs reis hverfi verkamannabústaða í holtinu. Bæjarhús Sunnuhvols voru rifin á 6. áratugi aldarinnar og gatan Háteigsvegur færð til og lögð yfir bæjarstæðið.

Kort – Sunnuhvoll:
Loftmynd frá 1954. Hér má m.a. sjá nokkur af þeim býlum sem byggð voru á þessum slóðum á fyrstu áratugum 20. aldar.  Upplýsingaskilti um Reykjahlíð má finna við Stakkahlíð og um Eskihlíð þar sem að Eskihlíðarbærinn stóð.
Horft austur yfir Rauðarárholt 1918, sennilega frá Barónsstíg. Bæirnir tveir í fjarska eru Sunnuhvoll (nær) og Háteigur (fjær). Dökka þústin efst á holtinu er vatnsgeymirinn á Rauðarárholti. Í fjarska sést gosmökkur frá Kötlugosinu 1918.
(Ljósmynd: Ólafur Magnússon)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is