„Þú færð hann hvorki fyrir gull né góð orð“

Íslenski hesturinn er eitt af sérkennum landsins og hefur verið svo allt frá fyrstu landnámsmönnum. Hrossakaup Breta hófust árið 1851, þegar leyfi fékkst til hestakaupa. Salan jókst síðan stöðugt og náði svo hámarki þegar 5.700 hestar voru seldir héðan á einu ári og var þetta auka búbót fyrir íslenska bændur. Á árunum 1851-1900 voru 65 þúsund hestar seldir héðan. Hestunum var skipað um borð í Reykjavík og oft mikill atgangur meðan á því stóð. Aðbúnaður hesta í skipunum sem fluttu þá var mjög bágur og drápust margir á leiðinni en yfirleitt voru 50-70 hestar í hverri ferð. Flestir þeirra hesta sem seldir voru til Bretlands enduðu í kolanámum þar sem þeim var þrælað út við hina verstu aðstæður. Salan þangað minnkaði svo í kjölfar vélvæðingar. Eftir aldamótin 1900 var farið að selja hross til bænda í Evrópu, þá mest til Danmerkur og svo líka Þýskalands og Bretlands og voru hrossin notuð til dráttar- og reiðar. Á fjórða áratug síðustu aldar var síðan ákveðið að leggja áherslu á að gæði hesta sem seldir voru héðan og í dag eru aðallega úrvalshestar seldir til útlanda.

Valtýr Stefánsson, seinna ritstjóri Morgunblaðsins, dvaldist á Jótlandi um skeið og kynntist viðhorfi heimamanna til íslenska hestsins: „Þeir eru líka augasteinar smábændanna á Vestur-Jótlandi. Ef maður er spurður á förnum vegi, hvað hann kosti íslenski hesturinn, sem hann hafi fyrir vagninum, þá er svarið venjulega á þá leið: Þú færð hann hvorki fyrir gull né góð orð.“

1920-1925, Reykjavíkurhöfn, hrossatóð á hafnarbakkanum. Hross bíða eftir að vera fluttur um borð í skip í Reykjavíkurhöfn. Gæti verið norska flutningaskipið Magnhild sem tók hross við Miðbakka 14. september 1920. (Ljósmyndari: Karl Christian Nielsen)

Hópur manna reynir að koma hesti um borð í lítinn trébát, til vinstri sést að annar hestur er komin um borð. (Ljósmyndari: Karl Christian Nielsen)

Heimildir: Faxaflóahafnir SF og Ljósmyndasafn Reykjavíkur