Víkurkirkja

Vitað er að kirkja var byggð í Reykjavík fyrir 1200. Elsti máldagi Víkurkirkju er frá árinu 1379 og er hún þar sögð helguð heilögum Jóhannesi. Í Vík bjuggu höfðingjar af ætt Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Þormóður langafabarn hans var allsherjargoði árið 1000 þegar kristni var tekin á Þingvöllum. Eftir kristnitökuna létu bændur og höfðingjar byggja kirkjur við bæi sína vegna þess að þeim var lofað því að þeir fengju pláss fyrir jafn margar sálir í himnaríki og rúmuðust í kirkjum þeirra. Kirkja gæti því hafa verið byggð í Reykjavík þegar á 11. öld. Bóndinn í Vík lét reisa torfkirkju við bæinn árið 1724. Hálfri öld síðar var kirkjan endurbyggð og torfveggjunum skipt út fyrir timburveggi. Einnig var byggður klukkuturn framan við kirkjuna. Sú kirkja var notuð sem dómkirkja eftir að biskupsstóllinn var fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur árið 1785, en þótti reyndar of lítil og ómerkileg sem slík. Eftir að Dómkirkjan við Austurvöll var vígð árið 1796 var gamla kirkjan rifin og grundin sléttuð. Talið er að kirkjur í Vík hafi ávallt staðið á sama stað í kirkjugarðinum. Í stéttinni í miðjum garði má sjá skjöld sem sýnir hvar altari kirkjunnar er talið hafa verið.

Reykjavík um 1770 (Málverk: Jón Helgason)

Víkurgarður

Gamli kirkjugarðurinn við Aðalstræti, Víkurgarður, er talinn hafa verið í notkun í um 800 ár, eða frá því stuttu eftir kristnitöku árið 1000 og fram á 19. öld. Jarðað var bæði í garðinum sjálfum og inni í kirkjunni. Talið er að garðurinn hafi upphaflega verið um 1500 m2 að flatarmáli. Kirkjugarðurinn var formlega aflagður árið 1838 þegar Hólavallagarður var tekinn í notkun, en nokkrir einstaklingar voru þó jarðaðir í gamla garðinum eftir það. Ómögulegt er að segja til um hversu margir voru grafnir í Víkurgarði frá upphafi, en ætla má að jarðneskar leifar um þrjátíu kynslóða Reykvíkinga hvíli hér. Víkurgarður er friðlýstur minjastaður, en það er mesta mögulega vernd sem menningarminjar á Íslandi geta notið.

Reykjavík 1786 (Kort: Aage Nielsen-Edwin)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is