Út er komin bókin Söguslóðir í Dölum eftir menningarsagnfræðinginn Árna Björnsson.
Það eru fá héruð jafn rík af sögum og Dalir. Auður djúpúðga nam héraðið og í Hvammi, landnámsbæ Auðar, hófst veldi Sturlunga. Svæðið er líka sögusvið Laxdælu um þau Kjartan, Bolla og Guðrúnu og sjálf Hallgerður langbrók sleit þar barnsskónum.
Þá eru Dalirnir líka sögusvið merkilegra tíðinda á síðari öldum og þar bjuggu margir er sett hafa sitt mark á sögu landsins.
Þetta er bók fyrir öll sem hafa gaman af sögulegum fróðleik, bæði heimamenn og ferðalanga en ekki síður fyrir þau sem þyrstir í þjóðlegan fróðleik og sögur úr íslensku samfélagi í bland við fróðleik um breiðfirska náttúru.
Það má með sanni segja að þarna sé Árni á heimavelli enda um heimahaga hans að ræða. Ritið hefur tekið sinn tíma í skrifum, eða um sex áratugi, en auk bóklegra heimilda naut höfundur fróðleiks úr samtölum við sveitunga.
Ferðafélag Íslands gefur út bókina og fæst hún á skrifstofu félagsins og á heimasíðu.
Helstu rit Árna Björnssonar:
- Jól á Íslandi 1963
- Saga daganna (fyrri gerð) 1977
- Icelandic Feasts and Holidays 1980
- Merkisdagar á mannsævinni (fyrri gerð) 1981
- Í jólaskapi. Myndir eftir Hring Jóhannesson 1983
- Gamlar þjóðlífsmyndir (ásamt Halldóri J. Jónssyni) 1984
- Þorrablót á Íslandi 1986
- Íslandsmyndir Mayers (ásamt Ásgeiri S. Björnssyni) 1986
- Hræranlegar hátíðir 1987
- Eyjar í Snæfellsnes- og Dalasýslu. (Árbók Ferðafélags Íslands 1989)
- Íslenskt vættatal 1990
- Saga daganna (doktorsrit) 1993
- High Days and Holidays in Iceland 1995
- Merkisdagar á mannsævinni (lengri gerð) 1996
- Dalaheiði. (Árbók Ferðafélags Íslands 1997)
- Wagner og Völsungar 2000
- Saga jólanna
- Í hálfkæringi og alvöru. Þættir um fræði, skáldlist, menningarsögu, heimsmálin og einkennilega menn í 85 ár (Afmælisrit 2017)
- Um vésögn Sóleyjarkvæðis. (Í bókinni Sóley sólufegri í ritstjórn Silju Aðalsteinsdóttur 2017)
- Söguslóðir í Dölum (2020)