Bókatíðindi 2023

Bókatíðindi 2023

Kæri bókaunnandi, okkar einstaka jólabókaflóð er brostið á. Nýjar bækur renna nánast á færibandi út úr prentsmiðjum og fylla hillur og borð bókaverslana. Umfangið er mikið og það getur verið erfitt að henda reiður á öllum þeim fjölda nýrra og áhugaverðra bóka sem út koma á þessum tíma ársins. Að ekki sé nú minnst á allar þær bækur sem komið hafa út fyrr á árinu og eiga fullt erindi til lesenda á hvaða árstíma sem er. Vonandi eru okkar árlegu Bókatíðindi þér kærkomin til að auðvelda valið úr útgáfuflóru ársins.

Síðustu ár hefur mikil gróska og fjölbreytni einkennt íslenska bókaútgáfu. Svo mikil að það vekur athygli langt út fyrir landsteinana hversu margar bækur eru gefnar hér út. Reyndar er það staðreynd að hér á landi er að finna eitt hæsta hlutfall nýrra titla sem gefnir eru út árlega miðað við höfðatölu. Á alþjóðlegum vettvangi bókaútgefenda erum við oft beðin um að gefa skýringar á þessu. Þær liggja ansi djúpt í sögu okkar, menningu og sagnahefð. Sú ríka þörf okkar og hefð langt aftur í aldir að segja sögur og miðla þeim til annarra í bókarformi er hreinlega hluti af erfðamengi okkar. Góðar viðtökur bókaunnenda, einlægur áhugi og þörf fyrir nýtt lesefni á ári hverju er svo vindurinn sem gefur okkur stöðugan byr í seglin.

Það er einlæg ósk okkar að í þessum Bókatíðindum finnir þú lesefni til að fylgja þér og þínum fram á nýtt ár. Um leið minnum við á vefinn okkar bokatidindi.is. Þar finnur þú allar upplýsingar prentuðu útgáfunnar og meira til. Jafnframt viljum við vekja athygli lesenda á því að eldri útgáfur Bókatíðinda eru nú aðgengilegar á timarit.is. Elstu samantektir ársútgáfunnar ná allt aftur til 1890 en ritið gekk undir nafninu Bókaskrá Bóksalafélags Íslands fram á áttunda áratug síðustu aldar.

Megir þú og allir þínir eiga gefandi og gleðileg íslensk bókajól!
Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.

Skoða Bókatíðindi 2022 hér

RELATED LOCAL SERVICES