Bókatíðindi 2022

Bókatíðindi 2022

Kæri bókaunnandi, enn á ný er uppáhalds árstími okkar bókaunnenda runninn upp þegar nýjar bækur streyma í verslanir og efnisveitur og umfjöllun um bækur í fjölmiðlum nær hámarki. Lesendur fyllast eftirvæntingu þegar þeir kynna sér bækur nýrra höfunda eða sjá að von er á nýrri bók frá uppáhalds rithöfundinum.

Bókatíðindin eru mælikvarði á umfang jólabókaflóðs hvers árs og þeim er jafnan vel tekið. Á liðnum árum hefur óskum um rafræna útgáfu ritsins fjölgað jafnt og þétt enda sífellt fleiri sem frábiðja sér fjölpóst auk allra þeirra Íslendinga sem búa erlendis og sakna blaðsins við óskalistagerð og gjafaákvarðanir. Fyrir ári síðan hófum við útgáfu á rafrænum Bókatíðindum og hefur vefurinn tekið miklum framförum síðan. Þar má finna ýmsar viðbætur sem ekki eru hér í blaðinu, svo sem hljóðbrot, sýnishorn innan úr bókum, slóð á vefsölur auk lengri og ítarlegri kynningartexta. Ég hvet þig, lesandi góður, til þess að kynna þér rafræna útgáfu Bókatíðinda á www.bokatidindi.is. Þrátt fyrir úrbætur okkar á vefrænni framsetningu höldum við enn í þá áralöngu hefð að gefa Bókatíðindin út í prentaðri útgáfu í aðdraganda jóla.

Sú samantekt á útgáfubókum ársins sem Félag íslenskra bókaútgefenda sinnir með útgáfu Bókatíðinda er í raun einstök. Ekki þekkjast sambærileg dæmi hvað þetta varðar í öðrum löndum. Sama á við um okkar séríslenska jólabókaflóð og þá hefð að gefa bækur í jólagjöf, hefð sem vakið hefur vaxandi athygli á síðustu árum meðal bókaunnenda um allan heim. Dæmi um þann áhuga má finna í miklum fjölda pósta á samfélagsmiðlum frá öllum heimshornum þar sem myllumerkið #jolabokaflod er notað.

Í Bókatíðindum ársins sem þú ert nú með í höndunum er að finna drekkhlaðið veisluborð af sprúðlandi ferskum og fjölbreyttum krásum nýrra bóka við allra hæfi. Staðfesting þess að við getum með sanni kallað okkur bókaþjóð.

Gleðileg íslensk bókajól!
Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda

Skoða Bókatíðindi 2022 hér

RELATED LOCAL SERVICES