Bókatíðindi 2014

Bókatíðindi 2014

Kæru bókakaupendur, íslenskur bókamarkaður er einstakur og það er ekki að ástæðulausu sem við viljum kalla okkur bókaþjóð. Á Íslandi gefa fleiri en 100 aðilar út bækur á hverju ári og í ár eru skráðar yfir 600 nýjar bækur í Bókatíðindin. Sjaldan eða aldrei hafa verið gefnar út fleiri íslenskar skáldsögur og í ár, og enn meiri ánægju vekur mikill fjöldi barna- og unglingabóka, en á árinu eru gefnar út tæplega 200 nýjar í þeim flokki.

Eitt af því sem gerir íslenskan bókamarkað svo einstakan eru Bókatíðindin sem þú heldur nú á, en hvergi í heiminum eru borin út tíðindi nánast allrar útgáfu ársins, inn á hvert heimili. Að fá Bókatíðindin í hendur markar í hugum margra upphaf jólahaldsins, enda jólabókaflóðið afar skemmtilegur hluti hátíðanna. Sú ríka hefð okkar að gefa bækur til jólagjafa er hornsteinn íslenskrar bókaútgáfu og það sem gerir það litla kraftaverk sem bókaútgáfa á Íslandi er mögulega.

Í ár er nokkur útlitsbreyting gerð á Bókatíðindunum, með það að markmiði að bæta framsetningu og aðgengi. Nú má finna táknmyndir undir kápumyndum allra bóka sem segja til um fáanleg útgáfuform, hvort sem um er að ræða prentaða bók, rafbók eða hljóðbók og samhliða eru felldir niður sérstakir kaflar um einstök útgáfuform.

Tveir nýir kaflar eru einnig kynntir til sögunnar í Bókatíðindum ársins, íslenskar og þýddar ungmennabækur. Þarna eru á ferðinni bækur fyrir stálpaða unglinga og ungt fólk sem áður voru flokkaðar ýmist með barnabókum eða skáldverkum fyrir fullorðna.

Framundan eru frábær bókajól!
Egill Örn Jóhannsson, Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda

Skoða Bókatíðindi 2014 hér

RELATED LOCAL SERVICES