Grjótaþorp

Kort af Reykjavík árið 1876, Grjótaþorp merkt sem Grjótahverfi.

Grjótaþorp dregur nafn sitt af bænum Grjóta sem var ein af átta hjáleigum Reykjavíkur á 18. öld. Bærinn stóð hér í Grjótabrekkunni, efst við Grjótagötu. Í landi Grjóta myndaðist hvirfing torfbæja á síðari hluta 18. aldar samhliða uppbyggingu timburhúsa við Aðalstræti. Í torfbæjunum bjuggu tómthúsbændur og starfsmenn Innréttinganna . Eftir að verslunin var flutt úr Örfirisey til Reykjavíkur um 1780 reisti fyrsti kaupmaðurinn í Reykjavík, Johan Chr. Sünckenberg, verslunarhús sín á konungslóðinni við Aðalstræti en pakkhúsin voru við Vesturgötu. Grýtt tún Grjóta lá hér eftir brekkunni norður frá bænum í átt að Grófinni. Um 1790 var grjótið hreinsað úr túninu og notað í veggi Dómkirkjunnar sem stendur við Austurvöll. Í kjölfarið hófst mikil garðrækt á svæðinu. Árið 1802 var búið þar í 19 húsum og íbúarnir voru 141. Um 20 torfbæir voru í Grjótaþorpi árið 1836 en eftir það fór þeim fækkandi. Um aldamótin 1900 var búið að rífa alla torfbæina og byggja timburhús í staðinn.

Húsin við Aðalstræti árið  1884, horft í austur. (Ljósmynd: Sigfús Eymundsson)

Grjótaþorpið afmarkast af Aðalstræti, Vesturgötu, Túngötu og Garðastræti. Aðalstræti er elsta gata borgarinnar og var áður nefnd Hovedgaden og um tíma Klubgaden. Hún lá frá Reykjavíkurbænum við suðurenda götunnar að uppsátri í Grófinni. Við suðurhluta Aðalstrætis voru klæða- og tauverksmiðjur Innréttinganna en nyrst voru verslunarhúsin. Vesturgata var áður  nefnd Hlíðarhúsastígur og Læknisgata en eftir henni lá leið vestur úr bænum að Hlíðarhúsum og fram á Seltjarnarnes. Túngata var áður nefnd Landakotsstígur ogí vestur frá Aðalstræti að Götuhúsum og Landakoti,  sem hvor tveggja voru fyrrum hjáleigur Reykjavíkur. Nafn götunnar vísar í gömlu túnin sem gatan lá um, Ullarstofu-, Götuhúsa- og Landakotstún. Garðastræti fékk nafn sitt af gömlum grjótgörðum sem lágu á bæjarmörkum Grjóta og Götuhúsa. Fischersund hét áður Götuhúsastígur og lá frá Aðalstræti vestur að Götuhúsum. Nafni stígsins var breytt í Fischersund til heiðurs Waldemar Fischer kaupmanni sem stofnaði styrktarsjóð handa fátækum ekkjum, föðurlausum börnum og efnalitlum ungum mönnum í Reykjavík og Keflavík árið 1888. Þetta er eina gatan í Reykjavík sem er kennd við danskan kaupmann. Mjóstræti var á tímabili nefnt Brekkustígur þar sem það lá framhjá torfbænum Brekku sem stóð þar sem í dag er Vinaminni, Mjóstræti 3.

Séð austur yfir Grjótaþorpið, húsin við Garðastræti árið 1908. (Ljósmynd: Magnús Ólafsson)

Grjótaþorpið var í mikilli niðurníðslu fram á seinni hluta 20. aldar vegna hugmynda um að leggja hraðbraut þar í gegn. Af henni varð ekki og hafa nú öll húsin verið endurnýjuð auk þess sem nokkur gömul timburhús haf verið flutt inn í hverfið til að styrkja hið gamla byggðamynstur. Grjótaþorpið hefur að geyma eina elstu byggð timburhúsa í Reykjavík. Sérkenni byggðarinnar eru þröngar götur og stakstæð timburhús í litlum grónum görðum.

Byggingarár húsa í Grjótaþorpi. (Kort: Anna Lísa Guðmundsdóttir)

Hús í Grjótaþorpi 1936, timbur- og torfhús (Map: Anna Lísa Guðmundsdóttir)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is