|
|
Hildur Hákonardóttir: Rauður þráður | |
Rauður þráður er fjölbreytt og umfangsmikil sýning á verkum myndlistarkonunnar Hildar Hákonardóttur sem opnuð verður á Kjarvalsstöðum þann 14. janúar næstkomandi. Sýningin er afrakstur rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur sem ætlað er að endurskoða hlut kvenna í íslenskri listasögu. Listasafn Reykjavíkur hlaut Öndvegisstyrk Safnaráðs árið 2021 fyrir stöðunni og er það Sigrún Inga Hrólfsdóttir sem hlaut fyrstu rannsóknarstöðuna árið 2021 og er hún jafnframt sýningarstjóri. Sýningin er sú fyrsta af þremur sem úr þessum Öndvegisstyrk kemur.
Hildur Hákonardóttir (f. 1938) hefur á löngum starfsferli sínum tekið á málefnum samtíma síns og kynjapólitík og nýtt til þess fjölbreytta miðla, þó mest vefnað. Málþing í tengslum við yfirlitssýninguna Hildur Hákonardóttir: Rauður þráður verður haldið á Kjarvalsstöðum laugardaginn 21. janúar kl. 13.00 – 17.00. Lykilerindi heldur Sigrún Inga Hrólfsdóttir, myndlistarmaður, sem er sýningarstjóri sýningarinnar og höfundur fræðigreinar um Hildi í sýningarskrá. Þá taka einnig til máls Æsa Sigurjónsdóttir, sýningarstjóri og dósent í listfræði við HÍ, Unnar Örn Auðarson, myndlistarmaður, Ragnheiður Björk Þórsdóttir, sérfræðingur á sviði textíls og vefnaðar, sem og Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, grafískur hönnuður. |