Bókatíðindi 2012

Bókatíðindi 2012

Kæru bókakaupendur, við sem gefum út bækur á Íslandi eigum ykkur allt að þakka. Þið hafið gert íslenska bókamarkaðinn að einstöku fyrirbæri. Ekkert sambærilegt málsvæði í heiminum hefur náð að skapa jafn öflugan bókamarkað og sú staðreynd er einungis komin til af því að þið kaupið bækur. Lifandi áhugi ykkar á að lesa efni eftir höfunda sem skrifa á íslensku er grundvöllurinn fyrir því að bækur koma út. Á undanförnum árum hafa mörg hundruð íslenskar bækur verið gefnar út í erlendum þýðingum. Til þess að svo megi verða þarf öfluga íslenska bókmenningu sem vekur áhuga hjá skapandi fólki á skriftum. Stuðningur ríkisvaldsins við höfunda, jafnt fagurbókmenntahöfunda sem höfunda fræðibóka, er mikilvægur, en þáttur bókamarkaðarins ríður baggamuninn. Ekki aðeins vegna þess að höfundar fá tekjur af sölu bóka sinna. Bókamarkaðurinn er vettvangurinn þar sem hugmyndir eru settar fram og sögur sagðar. Höfundar láta reyna á gildi hugmynda sinna með því að miðla þeim í bók og skapa umræður. Sá sem gefur út bók hættir til þess kröftum sínum og fjármunum í von um að hinir bókelsku Íslendingar lesi hana og ræði. Sá sem skrifar bók sér fyrir sér að hún nái til almennings með því að vera gjaldgeng vara á markaði.

Kæru bókakaupendur. Bókaútgefendur vinna árið um kring að því að búa bækurnar sem best í ykkar hendur. Þeir starfa með höfundum við að þróa hugmyndir þeirra. Þeir skoða málfar og stafsetningu, þeir velja leturgerðir og útlit, fjármagna framleiðslu og dreifingu og reyna að vekja athygli kaupenda á hugmyndum og sögum. Það skiptir ekki höfuðmáli í hvaða formi bækurnar eru. Vinnan við að koma þeim á markað er alltaf sú sama. Hún felst í því að fá til sín hæft fólk til að ritstýra bókum og markaðssetja þær. Búa til vettvang sem er eftirsóknarverður fyrir þá sem miðla viðhorfum og frásögnum á móðurmálinu. Þótt bækur séu ýmist innbundnar, í kilju, í hljóðformi eða rafrænar er formið á þeim ekki það sem skiptir máli. Það sem mestu máli skiptir er að þær komi út á vettvangi sem er lifandi og virkur. Við ætlum okkur áfram að fjárfesta árlega fyrir milljarða í þessum vettvangi – íslenskum bókamarkaði. Og við treystum á áhuga ykkar, ástríðu og þekkingarþorsta. Eins og við höfum gert í 120 ár.

Kristján B. Jónasson, Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda

Skoða Bókatíðindi 2012 hér

RELATED LOCAL SERVICES