Höfundur: Ólafur Egilsson

Sumarið 1627 hlupu sjóræningjar frá Norður-Afríku á land á nokkrum stöðum á Íslandi og höfðu með sér á fjórða hundrað manns sem ætlunin var að selja í þrældóm. Aðfarirnar voru skelfilegastar á sunnanverðum Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, sem áður voru byggð í blóma en eftir þetta lamaðar í sárum. Meðal hertekinna voru séra Ólafur Egilsson að Ofanleiti og kona hans Ástríður Þorsteinsdóttir, með tveimur barnungum sonum. Sá þriðji fæddist í hafi á leið til Algeirsborgar. Ráðamenn þar afréðu að senda séra Ólaf til Kaupmannahafnar í því skyni að fá konung til að leysa fanga út með fé og var hann allan veturinn á leiðinni.