Halldór og Halldór

Halldór Baldursson mætir Halldóri Péturssyni. Teiknismiðja fyrir börn og fjölskyldur
7. mars kl. 14
Nafnarnir Halldór Baldursson og Halldór Pétursson eru þjóðkunnir teiknarar báðir tveir. Sá fyrrnefndi leiðbeinir börnum og fylgifiskum að teikna dýr og fólk, sveit og borg, eða annað sem viðstöddum blæs í brjóst í tengslum við sýningu á verkum Halldórs Péturssonar (1916-1977) sem stendur yfir í Myndasal Þjóðminjasafnsins til og með 14. mars. Sýningin nefnist Teiknað fyrir þjóðina – myndheimur Halldórs Péturssonar. 

Verið hjartanlega velkomin með börnin að skoða sýninguna og teikna undir handleiðslu eins reyndasta teiknara þjóðarinnar. Allt efni innifalið.
Athugið ekki þarf að skrá sig fyrirfram á viðburðinn.

Halldór Baldursson er fæddur árið 1965 og hefur myndskreytt á annað hundrað barna- og kennslubóka auk þess sem hann teiknar reglulega skopmyndir í bæði Fréttablaðið og Viðskiptablaðið sem oftar en ekki fela í sér flugbeitta samfélagsrýni. Hann er einn af forvígismönnum teiknimyndasögublaðsins GISP og kennir myndskreytingu og teikningu við ýmsa listaskóla. Halldór varð fyrir miklum áhrifum af þeim myndheimi sem Halldór Pétursson skapaði og var einhvern vegin alltumlykjandi á uppvaxtarárum hans. Báðir hafa þeir nafnarnir haft lífsviðurværi sitt af myndskreytingum og teikningum sem birst hafa í fjölbreyttu samhengi.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu.

Á yfirlitssýningunni Teiknað fyrir þjóðina má glöggt sjá fjölhæfni Halldórs Péturssonar sem teiknara en þar eru sýndar teikningar, skissur og fullunnin verk hans frá barnæsku til æviloka. Árið 2017 færðu börn Halldórs Þjóðminjasafni til varðveislu heildarsafn teikninga föður síns. Stór hluti verkanna á sýningunni koma úr þeirri safneign en eins eru sýnd verk fengin að láni frá fjölmörgum stofnunum hér á landi. Sýningarstjóri er Unnar Örn Auðarson. Sýningin stendur til og með 14. mars 2021. Sjá nánar hér.

Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnareglur sem eru í gildi. Grímuskylda og 2 metra reglan gildir á safninu.

RELATED LOCAL SERVICES