Sturlungaöldin einkenndist af miklum átökum milli helstu höfðingjaætta Íslands um eignir og völd en endalok tímabilsins miðast við árið 1262 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála. Skagafjörður varð miðpunktur þessara átaka og þar voru háðar nokkrar af stórorrustum Sturlungaaldar. Meðal þeirra var Haugsnesbardagi sem fram fór þann 19. apríl 1246 og er hann mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi en þar féllu yfir eitt hundrað manns.
Sigurður Hansen bóndi í Kringlumýri hefur alla tíð verið áhugamaður um Sturlunga sögu og haft sögusvið Haugsnesbardaga fyrir augum sér en hann fékk söguna ekki til að ganga upp í landslaginu. Árið 2009 byrjaði hann að safna saman stórum steinum á þeim slóðum sem bardaginn á að hafa farið fram og raða þeim upp eins og hann sá fyrir sér að fylkingarnar hefðu verið augnabliki áður en þeim laust saman. Sviðsetning Sigurðar telur yfir þrettán hundruð stóra grjóthnullunga, sem vega samtals um 600 tonn, og táknar hver steinn einn þátttakanda bardagans. Sumir steinanna eru merktir með krossi til að tákna þá sem féllu.
Í Kringlumýri hefur Sigurður breytt útihúsum í samkomusal er nefnist Kakalaskáli og er það hlýlegur, timburklæddur salur sem nýtist undir ýmiskonar viðburði. Þar hefur verið boðið upp á fyrirlestra sem tengjast sögu og menningu, ráðstefnur, málþing og tónleika en hljómburðurinn í skálanum þykir sérlega góður. Kakalaskáli hentar jafnframt vel undir veislur, s.s. brúðkaup- og fermingaveislur.
Sigurður býður upp á leiðsögn um sviðsetningu Haugsnesbardaga þar sem hann segir frá tilgátu sinni um aðdraganda og atburðarrás bardagans.
Pantanir á leiðsögn og leigu á sal fara fram í síma 899 2027 og 453 8227 eða í gengum netfangið [email protected].