Karl Jóhann Jónsson er fæddur árið 1968. Hann útskrifaðist úr málaradeild MHÍ 1993 og með gráðu í listkennslu við LHÍ árið 2006. Meðfram myndlistinni hefur hann starfað við myndmenntakennslu í Hörðuvallaskóla í Kópavogi og kennt á námskeiðum fyrir fullorðna m.a. í Myndlistarskólanum í Reykjavík.
Karl Jóhann á að baki bæði fjölda einka- og samsýninga. Portrett verk eiga sérstakan stað í hjarta hans. Tvívegis hefur hann tekið þátt í portrettkeppninni Portræt Nu sem er haldin á vegum Carlsberg safnsins í Friðriksborgarhöll í Danmörku og hafa verk hans verið valin til sýningar þar. Karl Jóhann átti verk á sýningunni Allt sem sýnist – Raunveruleiki á striga 1970 – 2020 á Kjarvalsstöðum sumarið 2020. Hann hefur samið og myndskreytt bækur fyrir börn ásamt því að myndlýsa bækur eftir aðra höfunda og hlaut hann myndskreytiverðlaun sem kennd voru við Dimmalimm árið 2010 fyrir bók sína Sófus og svínið.
Um sýningu sína Dýr uppstilling segir Karl Jóhann: “Frá upphafi hefur realismi í einhverri mynd verið í aðalhlutverki og ég hoppa á milli þess að mála uppstillingar, dýr og umhverfi. Að mála fólk hefur þó alltaf verið þungamiðjan hjá mér, bæði að mála persónuleg portrett og að mála eftir pöntunum. Á þessari sýningu er lögð áhersla á uppstillingar og dýr, eins og titill hennar ber með sér, Dýr uppstilling. Upplifun mín er alltaf að ég sé að mála portrett, þó viðfangið séu hlutir eða dýr. Um leið leik ég mér að skilgreiningum hefðarinnar, hvenær dýrið er orðið að uppstillingu og uppstilling orðin portrett”.
Einstök ró einkennir myndir Karls Jóhanns, hvort sem um ræðir uppstillingarnar eða “portrett” hans af lifandi dýrum og fortíðarþrá kemur upp í hugann. Myndlistin snýst oft um að fanga augnablikið, í verkum Karls Jóhanns er augnablikið eilítið lengra en við eigum að venjast, jafnvel heil eilífð.
Þetta er fyrsta einkasýning Karls Jóhanns í Gallerí Fold og stendur sýningin til 10. desember.