Fyrr í haust komu saman 35 höfundar, teiknarar, útgefendur, fræðimenn og aðrir aðilar sem koma að norrænum barna- og unglingabókmenntun, bæði á fjarfundi og staðfundi í Danmörku, þar sem gætt var að varúðarráðstöfunum vegna kórónuveirunnar. Þau tóku þátt í þriggja daga málþingi „HEIMUR Í UMBREYTINGU – vistfræðilegir straumar í norrænum barna- og unglingabókmenntum“ þar sem þau skoðuðu vistfræðilega strauma í samtímabókmenntum og miðluðu þekkingu og reynslu hvert til annars. Þetta er samstarfsvettvangur sem einnig veitir þátttakendum einstakt tækifæri til þess að setja sameiginlegt og hvetjandi mark sitt frá ólíkum sjónarhólum á væntanlegt safnrit þar sem niðurstöðum málþingsins er miðlað.
Hlutverk bókmennta í síbreytilegum heimi
Norrænar barna- og unglingabókmenntir eiga sterka hefð og eru meðal þeirra bóka sem bæði seljast mest og eru mest lesnar á Norðurlöndum. Viljinn til þess að miðla breytingum og félagslegum aðstæðum til barna og ungmenna er ekki nýr af nálinni og þetta á einnig við um umhverfis- og loftslagsmál. Nina Goga, pófessor í barnabókmenntun við Háskólann á Vestlandet í Noregi útskýrir tilhneiginu síðustu ára:
„Frá því um 2000 eykst athyglin á tengsl mengunar og loftslagsbreytinga sem ekki er hægt að skýra sem eðlilegan breytileika heldur verður að horfast í augu við að séu óafturkræfar afleiðingar mannlegra gerða og áhrifa á náttúruna. Í bókunum er í meira mæli en áður lögð áhersla á að „allt sé samtengt“ og að miklar breytingar á hegðun neytenda frá degi til dags séu nauðsynlegar til þess að stöðva umhverfis- og loftslagsáhrifin. Eins og fram kemur í fyrirlestri mínum er samt sem áður, eins og í mörgum eldri barnabókmenntum þar sem umhverfisvandi er til umfjöllunar, enn fyrir hendi sterk trú og einnig mikill þrýstingur á að börn taki ábyrgð og hrindi nauðsynlegum breytingum í framkvæmd.“
Mikil fjölgun bóka um sjálfbærni
Frá árinu 1993 hafa allar barnabækur sem gefnar eru út í Svíþjóð verið lesnar og flokkaðar af sænsku barnabókastofnuninni (Svenska barnboksinstitutet). Árið 2019 var metár bóka þar sem fjallað er á mismunandi hátt um umhverfismál. Þetta er þróun sem má sjá að er svipuð í hinum löndunum.
„Útgáfa bóka með umhverfisþema árið 2019 á sér enga hliðstæðu í sögu Bokprovningen og miðað við það sem ég hef nú þegar séð af útgáfu þessa árs eru umhverfismál áfram ofarlega á baugi,“ segir Lydia Wistisen, lektor í barna- og unglingabókmenntum við Menningar- og siðfræðistofnun háskólans í Stokkhólmi. Hún gefur eftirfarandi dæmi úr bókinni „Mitt bottenliv“ (2020) eftir Lindu Bondestam.
„Enginn vissi hvar stóru bitarnir lentu en við leiddum sjaldan hugann að því. (Tilvitnun í bókina „Mitt bottenliv“ (2020) eftir Lindu Bondestam.)
„Í bókinni „Mitt bottenliv“ er náttúran ekki aðgerðalaust fórnarlamb rányrkju mannsins og birtingarmynd sorps og mengunar er jafnan hugmyndarík og fagurfræðilega krefjandi. Sé aftur vikið að tilvitnuninni þá skilgreinir Linda Bondestam jörðina með viðkvæmu vistkerfi sínu en sterkan lífsvilja um leið. Dreifing tálknamandranna í hundraðatali yfir svæðið líkist að mörgu leyti dreifingu mannfólks á jörðinni. Bókin veitir ekki afgerandi svör en kannski hefur allt mannfólk verið numið á brott, kannski hefur tímabil tálknamandranna tekið við af tímabili sorpsins.“
Greta, loftslagsótti og væntumþykja um náttúruna
Miðað við endalausar fyrirsagnir um hamfarir og loftslagsógnir þarf ekki að koma á óvart að gefnar séu út margar bækur þar sem fjallað er um loftslagsvána og samband manns og náttúru frá mismunandi sjónarhóli. Þetta snýst um allt frá handbókum, uppflettiritum, ævisögum um Gretu Thunberg og sögur af öðrum umhverfishetjum eða baráttufólki til ævintýra og myndabóka. Lydia Wistisen lítur svo á að skoða megi barna- og ungmennabókmenntir sem samtal milli barna og fullorðinna:
„Barna- og unglingabókmenntir er eitt afbrigði samtals milli fullorðinna og barna. Bókmenntir eru ein leið fullorðinsheimsins til þess að styðja við áhyggjufull börn. Bók sem tekur lesendur sína alvarlega stofnar til samtals við lesandann sem stuðlar að því að lesandanum finnst hann síður vera einn um áhyggjur sínar. Um leið geta bókmenntir aukið á kvíða barna og ungmenna, til dæmis með því að gera of miklar kröfur um að þau grípi til aðgerða.“
Safnrit frá málþinginu verður gefið út árið 2021
Málþingið „Þvert á Norðurlönd“ er samstarfsvettvangur þar sem nýjum rannsóknum og þekkingu um barna og unglingabókmenntir á Norðurlöndum er miðlað. Málþingið í ár var annað í röð þriggja og niðurstöður umræðna, vinnustofa og samtala þriggja daga er safnað saman í safnrit um vistfræðilegan boðskap í norrænum barna- og unglingabókmenntum sem verður gefið út í upphafi árs 2021 en þar verður meðal annars að finna vísindagreinar, leikrit og myndskreytingar.
Um verkefnið
Verkefnið er hluti af átaki norrænu menningarmálaráðherranna á sviði barna- og unglingabókmennta „LØFTET“ sem staðið hefur síðan 2013 þegar stofnað var til norrænu barna- og unglingabókaverðlaunanna. Markmiðið með þessu þriggja ára verkefni þar sem haldið er árlegt málþing er að skapa jarðveg fyrir ríkulega uppskeru norræna barna- og unglingabókasamfélagsins gegnum kraftmikinn breiðan og þverfaglegan hóp þátttakenda.
Verkefnastjóri LØFTET er Sofie Hermansen Eriksdatter, skrifstofustjóri Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.