Magnús Jónsson fæddist að Hvammi í Norðurárdal 26. nóvember 1887.
Hann fluttist barnungur með foreldrum sínum norður til Skagafjarðar og ólst þar upp á Mælifelli og síðar á Ríp. Ungur var hann settur til mennta, lauk stúdentsprófi 1907 og guðfræðiprófi við prestaskólann 1911. Árið 1917 var hann skipaður dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands, varð prófessor í guðfræðideild 1928, var atvinnumálaráðherra um átta mánaða skeið á árinu 1942, en gegndi síðan kennslustörfum við guðfræðideildina á ný til ársins 1947, er hann var skipaður formaður fjárhagsráðs, sem þá var sett á stofn. Síðustu ár ævinnar fékkst hann við ritstörf og sinnti öðrum hugðarefnum sínum.
Magnús var sjálflærður listamaður og ötull málari. Hann sýndi verk sín á allmörgum sýningum, fyrst árið 1921 hjá Listvinafélagi Íslands og svo síðar á sýningu Bandalags íslenskra listamanna 1941 og Reykjavíkursýningunni 1950. Einkasýningar hélt hann meðal annars í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1954 og 1958.