Myndlistin okkar á Kjarvalsstöðum

Sýningaropnun á Menningarnótt 

MYNDLISTIN OKKAR

Síðastliðið vor var blásið til kosningaleiks á Betri Reykjavík undir yfirskriftinni Myndlistin okkar. Þar gafst fólki tækifæri til þess að velja listaverk á sýningu á Kjarvalsstöðum úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og alls voru greidd yfir 26 þúsund atkvæði og fjöldinn allur af listaverkum sem hlutu fleiri en eitt atkvæði.

Á samnefndri sýningu sem nú verður opnuð á Menningarnótt eru þau verk sem hlutu flest atkvæði almennings til sýnis.

Sýningarstjórn og verkaval er algerlega úr höndum safnsins og fjöldi verka ræðst af plássi í salnum. Úrvalið er fjölbreytt og áhugaverð blanda af listsköpun frá ólíkum tímum. Þar birtist einstök sýn á þessa sameign borgarbúa sem í heild telur 17 þúsund verk.

Kosningaverkefnið  er hluti af 50 ára afmæli Listasafns Reykjavíkur, þar sem safneigninni er gert hátt undir höfði með ýmsum hætti.

Þau verk sem hlutu flest atkvæði í kosningunni eru Hringfarar eftir Önnu Rún Tryggvadóttur, Köttur III eftir Matthías Rúnar Sigurðsson og Uppspretta eftir Bryndísi Jónsdóttur og verða þessi verk á sýningunni auk fjölda annara listaverka eftir fjölbreyttan hóp listamanna.

Inni í sýningarsalnum er kubbur þar sem settar verða upp smásýningar undir heitinu Myndlistin þeirra.
Þar býður safnið samstarfsaðilum sínum og fastagestum gegnum árin að velja saman verk eftir eigin höfði. Smásýningarnar standa aðeins rúma viku í senn og dreifast yfir sýningartímabilið.
Gestasýningarstjórar eru Klambrar bistro, Bræðurnir Baldursson, Hlutverkasetur, Íslenski dansflokkurinn og nemendur í Víkuskóla.

Dagskrá Menningarnætur á Kjarvalsstöðum:

10.00 – 22.00: Sýningaropnun! Myndlistin okkar

12.00: Setning Menningarnætur við Kjarvalsstaði. Langi Seli og Skuggarnir trylla lýðinn.

13.00, 13.30, 14.00, 14.30: Örleiðsagnir um sýningarnar.

15.00: Marentza Poulsen og samstarfsfólk hennar á Klambrar Bistro kynna fyrsta kaflann í sýningarseríunni Myndlistin þeirra sem er sá hluti sýningarinnar Myndlistin okkar þar sem nánir samstarfsaðilar Listasafns Reykjavíkur velja verk á sýninguna.

20.00: Kosningavaka ´23: Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur og kosningaspekúlant, rýnir í tölur og mögulegar útkomuspár Myndlistarinnar okkar. Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, verður með upplýsingar um niðurstöður og framkvæmd kosninganna.

Frítt er inn í öll safnhús Listasafns Reykjavíkur á Menningarnótt.

 

*Forsíðumynd: Málverkið Forði (1992)  eftir Tryggva Ólafsson,  hlaut hún 138 atkvæði og lent í 22. sæti í kosningunni. 

RELATED LOCAL SERVICES