Leiðsögn listamanns: ÓraVídd
Sunnudag 14. febrúar kl. 14.00 á Kjarvalsstöðum
Við endurtökum leiðsögn Sigurðar Árna um sýninguna ÓraVídd á Kjarvalsstöðum, þar sem færri komust að en vildu á síðustu leiðsögn. Sigurður Árni Sigurðsson á að baki áhugaverðan listferil og hefur hann útfært verk sín með fjölbreyttum hætti. Hann hefur alla tíð spunnið stef við málverkið og tekist á við eiginleika þess miðils. Verk hans fjalla um það hvernig við horfum á heiminn í kringum okkur, þau vekja spurningar um eðli og takmörk sjónsviðsins og hvernig það leggur grunn að heimsmynd okkar. Þar kallast á bæði það sem sést með berum augum og einnig það sem við sjáum ekki.
Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.
Aðalsteinn Ingólfsson skrifar um ÓraVídd yfirlitssýningu á verkum Sigurðar Árna Sigurðssonar á Kjarvalsstöðum.
Fram eftir nýliðinni öld deildu menn um íslenska myndlist á forsendum þjóðhollustu fremur en fagurfræði. Inn í þá umræðu voru stundum dregnar erlendar myndlistarstefnur, eftir því hvort þær féllu að listrænum hagsmunum Íslendinga eður ei. Þá var myndlistarleg heimsmynd Íslendinga tiltölulega fábreytt; fyrir þeim var listin annað hvort þýsk eða frönsk. Þeim sem annt var um það sem þeir kölluðu „heilindi“ íslenskrar myndlistar, töldu að hún ætti að taka sér til fyrirmyndar þýsku myndlistina, að því gefnu að hún væri laus við áhrif frá bolsévíkum og Gyðingum. Íslendingar væru jú þjóð af sama germanska meiði og Þjóðverjar. Sjálfir gerðu Þjóðverjar og Frakkar greinarmun á myndlist þjóðanna, eins og hún birtist á tuttugustu öldinni. Að þeirra mati snerist þýsk myndlist fyrst og fremst um tjáningu sjálfsins, en frönsk myndlist var athugun á tjáningu sjálfsins. Á þessu er umtalsverður munur.Sjá meira hér
Sjá fleiri greinar um íslenska myndlistamenn klikka hér