Þórunn Bára opnar sýningu, Tilveru, í Gallerí Fold

Þórunn Bára opnar sýningu sína, Tilveru, í Gallerí Fold við Rauðarárstíg laugadaginn 31. október 2020. Rauður þráður í verkum Þórunnar Báru er náttúruskynjun. Hún trúir því að skynreynsla sé vannýtt leið að gagnrýnni hugsun og ábyrgð fólks á umhverfi og eigin lífi, leið sem geti dregið úr firringu og verið hvati til góðra verka. Hún vinnur stór og litrík verk með óræðum formum úr náttúrunni, einkum plönturíkinu. Þórunn hefur sótt innblástur í Surtsey og rannsóknir á því hvernig líf hefur kviknað á eldfjallaeyju á hafi úti. Í verkum sínum frystir hún tímann eitt augnablik og býður þar upp á rými til innra samtals áhorfandans við hversdagslega náttúru sem fæstir veita eftirtekt.
Þórunn Bára lauk prófi í málun og teikningu frá Listaháskólanum í Edinborg og mastersprófi í listum frá Wesleyan-háskóla í Bandaríkunum.
Umsýninguna segir Þórunn Bára:
„Tilvera er yfirskrift sýningar minnar í Galleríi Fold. Á sýningunni eru ný akrýlverk, máluð á striga, þar sem vitnað er um gróskumikla náttúru; plöntur af ýmsum gerðum sem hafa náð bólfestu í hrjóstrugum eldfallajarðvegi í skjóli vistkerfis án íhlutunar mannsins.
Ég sæki hvatningu í smiðju náttúruvísinda um framgang lífs í Surtsey. Málverkin bera vitni um styrk, viðkvæmni og fegurð náttúrunnar. Náttúran er undirstaða lífs á jörðu og tenging við hana gefur færi á að upplifa mannbætandi tilfinningar og fá aukinn skilning á eigin lífi.
Með þessum verkum vek ég athygli á náttúrunni og leyfi henni að snerta hjörtun þannig að okkur auðnist að taka upplýsta afstöðu varðandi loftslagsbreytingar sem hafa stigvaxandi áhrif á allt líf.
Vistkerfið á í vanda. Jörðin er eina heimilið okkar. Við berum sameiginlega ábyrgð á að stemma stigu við margvíslegum orsökum hnattrænnar hlýnunar og að bregðast við, jafnt í orði sem á borði. Þessi sýning er mitt framlag.“
Vegna samkomubanns mun opnunin standa frá kl. 14 – 16 en aðeins mega 20 vera í Galleríinu í einu. Boðið verður upp á léttar veitingar á þeim tíma. Streymt verður frá opnuninni á Facebooksíðu Gallerís Foldar og hefst útsendingin kl 14:00 með frumsýningu á myndbandi um listamanninn.
Sýningin stendur til 14. nóvember n.k. og er opin á opnunartíma gallerísins.

RELATED LOCAL SERVICES