Þula – Kasbomm

Auður Ómarsdóttir – Kasbomm
16. september – 15. október 2023

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á einkasýningu Auðar Ómarsdóttur, KASBOMM sem opnar í Þulu laugardaginn 16. september klukkan 17:00.

Verkin á sýningunni Kasbomm endurspegla vinnuferli Auðar síðastliðna mánuði sem hefur litast af því ástandi að vera barnshafandi. Hringform, litagleði og plöntuvöxtur eru áberandi þemu sem má sjá í verkum hennar. Sýningin er að mörgu leyti frásögn af því hvernig barnshafandi kona þreifar fyrir sér í nýjum upplifunarheimi og hvernig hún færir hann í myndrænt form.

Kasbomm er fjórtánda einkasýning Auðar en hún hefur verið virk í sýningarhaldi hérlendis og erlendis síðastliðinn áratug.

Auður Ómarsdóttir (f.1988) býr og starfar í Reykjavík. Auður hlaut BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og MA gráðu frá Listaháskólanum í Bergen 2021. Auður var tilnefnd til hvatningarverðlauna Myndlistarverðlauna Íslands 2018 og situr í stjórn Nýlistasafnsins. Auður vinnur myndlist sína einna helst í málverki, en hefur þó unnið mikið í blandaða miðla í gegnum sinn feril. Þar má nefna skúlptúr, ljósmyndun, vídjó og teikningu.

Líkamleiki og eftirtektarsemi spila stóra rullu í sköpunarferli hennar. Verk Auðar eru iðulega á einn eða annan hátt sjálfsævisöguleg en innblásturinn kemur jafnan frá persónulegum atburðum, þáttum í nærumhverfi eða af internetinu sem Auður yfirfærir í myndrænt tungumál sitt. Verk Auðar fjalla jafnan um þá tilraun til þess að knýja fram harmóníu í andstæðum. Hún vinnur oft meðvitað þvert á stíla en hún álítur þversögnina frumafl í vinnuferli sínu, þar sem hún upplifir veröldina þversagnakennda og tilviljanakennda. Það endurspeglast í verkum Auðar.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0