Gallerí Fold – Pangeatic

Gallerí Fold
Stig Stasig og Sófía Stefánsdóttir – Pangeatic
11. nóvember – 2. desember 2023

Gallerí Fold kynnir sýningu Stig Stasig og Sófíu Stefánsdóttur, Pangeatic.

Danski ljósmyndarinn Stig Stasig og íslenska myndlistarkonan og mannfræðingurinn Sófía Stefánsdóttir standa að sýningunni „Pangeatic“ sem opnar í Gallerí Fold laugardaginn 11. nóvember.

Á sýningunni eru 20 ljósmyndaætingar sem unnar eru á verkstæði listamannanna í miðborg Kaupmannahafnar.

Sýningin „Pangeatic“ er samræða um lífið í hafsvæðinu á norðurslóðum. Í gegnum rannsóknir kvikna hugrenningatengsl um tilvistarlegar spurningar sem við öll stöndum frammi fyrir; viðkvæmni, líf og dauði, eyðilegging, blekking og sannleikur. Hugurinn fer á flug þegar allra smæstu verur lífríkisins eru rannsakaðar, form þeirra og speglun skoðuð. Í gegnum aðferðir og efnisval kviknar samtal milli leiðandi tækni nútímans og þeirri vitneskju sem við nú búum yfir við hið forna og óskiljanlega. Neðansjávarljósmyndir Stig Stasig og smásjármyndir sem fengnar voru að láni frá Kaupmannahafnarháskóla sýna nýstárlegar lífverur og óspillt neðansjávarlandslag. Myndirnar eru unnar stafrænt og yfirfærðar á handgerðan koparprentpappír.

Náttúruundrið Strýtan er í stóru hlutverki á sýningunni. Strýtan er neðansjávarhverastrýta sem staðsett er fyrir miðjum Eyjafirði, um það bil miðja vegu milli Víkurskarðs og Hjalteyrar. Þar teygir hún sig hátt upp af sjávarbotni og dælir heitu vatni úr iðrum jarðar út í kaldan sjóinn. Neðansjávarhverastrýtur eru tiltölulega nýuppgötvuð fyrirbæri, en hafa engu að síður vakið mikla athygli og telja sumir vísindamenn að þær séu uppruni alls lífs á jörðinni.

Stig Stasig er fæddur árið 1961. Hann hefur sýnt í Danmörku, Svíþjóð, Hollandi, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Hann hefur m.a. hlotið viðurkenningu Agfa og Bilderberg sem besti heimildaljósmyndari Evrópu. Verk hans eru að finna í söfnum Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn, í Brandts listasafninu í Óðinsvéum sem og í ótal einkasöfnum í Danmörku og víðar. Stig rekur verkstæðið The Stasig Archives í Kaupmannahöfn og hefur unnið þar undanfarin ár að nýrri tækni við ljósmyndaætingar og litaprentun.

Sófía Stefánsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1970. Hún flutti til Kaupmannahafnar árið 1977 ásamt móður sinni Ingu Birnu Jónsdóttur rithöfundi, fyrrum kennara við Kennaraskólann og formanni menntamálaráðs. Sófía er upphaflega söngkona og starfaði sem slík í Bandaríkjunum. Síðar lærði hún mannfræði í Kaupmannahafnarháskóla og var yfirmannfræðingur hjá Innovation Lab í Kaupmannahöfn. Þar bar hún ábyrgð á stórum rannsóknum er vörðuðu fólk og tækni svo eitthvað sé nefnt. Hún hefur helgað sig myndlist frá árinu 2020 og er hluti af The Stasig Archives þar sem hún sér um hugmyndavinnu, sýningarstjórn og sérhæfir sig í prentun með fornum ljósmyndaaðferðum.

Sýningin er í forsal Gallerís Foldar og stendur til 2. desembers 2023.

Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg
mán-fös 12 – 18 og laugardaga 12 – 16.

Rauðarárstíg 12-14 105 Reykjavík

5510400

[email protected]

myndlist.is/


11. nóvember - 2. desember 2023


CATEGORIES


NEARBY SERVICES

 • Best of Iceland

  Best of Iceland
 • Related Articles

   Karl Kvaran 1924 – 1989

   Karl Kvaran 1924 – 1989

   Karl Kvaran 1924 - 1989 Karl Kvaran er i hópi okkar bestu abstraktmálara, á þvi leikur naumast neinn vafi. Hann er 54...

   Íslensk myndlist – Útgáfuhóf

   Íslensk myndlist – Útgáfuhóf

   Íslensk myndlist - Útgáfuhóf Í tilefni útgáfu bókarinnar Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina eftir Margréti T...

   Draumabyrjun: MAGNÚS THORLACIUS

   Draumabyrjun: MAGNÚS THORLACIUS

     https://www.youtube.com/watch?v=W_kblF0cOrE Draumur lifnar við Hvað átti að taka síðan við? Ég bið...

   Skúlptúr / skúlptúr

   Skúlptúr / skúlptúr

   18.11.2020 - 28.02.2021   Sýningaröðin SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR opnar í fjórða sinn í Gerðarsafni með einkasýningu...