Vogabyggð

Pálmatré eftir Karin Sander sigurtillagan í Vogabyggð
Pálmatré, tillaga þýska listamannsins Karin Sander, bar sigur úr býtum í samkeppninni um útilistaverk í Vogabyggð. Niðurstaða dómnefndar var kynnt í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum síðdegis. Verkið gerir ráð fyrir að tveimur pálmatrjám sé komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafi ljós og hlýja.

 

Að auki lagði dómnefnd til kaup á verki eftir danska listhópinn A Kassen.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti ávarp við upphaf athafnar, en það kom í hlut Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa og formanns dómnefndar, að tilkynna niðurstöður dómnefndar.

Þetta er ein viðamesta samkeppni um útilistaverk sem efnt hefur verið til í Reykjavík.

Kallað var eftir tillögum að verkum sem myndu styrkja þau markmið að myndlist verði veigamikill og afgerandi hluti umhverfis og mannlífs í Vogabyggð og skapa þannig örvandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa. Mótuð var sú metnaðarfulla hugmynd að myndlist yrði hluti af innviðum hverfisins og því er fjármögnum listaverka þar samstarf lóðaeigenda og Reykjavíkurborgar.

Þrettán framúrskarandi tillögur bárust í samkeppnina og því ljóst að verkefni dómnefndar var afar erfitt. Allar tillögurnar eru sýndar á Kjarvalsstöðum til 7. febrúar.

Það var einróma niðurstaða dómnefndarinnar að velja tillögu Karin Sander, Pálmatré, sem vinningstillögu í samkeppninni.


Í umsögn dómnefndar segir:

„Tillagan er óvænt, skemmtileg og djörf. Pálmatrjám er komið fyrir í tveimur sívölum, turnlaga gróðurhúsum sem sett eru niður við jaðar miðlægs torgs við bakka Ketilbjarnarsíkis. Frá þeim stafar hlýja og ljós.

Pálmatré bera með sér andblæ suðrænna landa, eins og höfundur tillögunnar bendir á. Þau eru tákn heitra og framandi staða og menningar og fela um leið í sér minni um útópíu þar sem paradísarástand ríkir. Hér skjóta þau rótum í köldu og hrjóstrugu landi – rétt eins og fólk frá framandi slóðum sem hefur sest hér að.

Gróðurhúsin gefa torginu og öllu umhverfinu ævintýralegan blæ, að nóttu sem degi, og verða áberandi kennileiti sem á eftir að vekja athygli. Í þeim má líka lesa tíma því íbúarnir geta fylgst með trjánum vaxa frá því að vera lítil og þar til þau verða stór og bera ávexti. Það mætti jafnvel líta á gróðurhúsin sem stór tilraunaglös.

Verkið skapar örvandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa. Það virkjar rýmið án þess að taka yfir torgið og gefur því mannlífinu pláss fyrir ýmis konar leik og störf. Þarna verður vafalaust til skemmtilegt mannlífstorg sem tengist hjóla- og göngustígum í þessu nýja borgarhverfi og göngubrú sem liggur yfir síkið að tanga í Elliðaárósum sem kallast nú Fleyvangur. Á tanganum verða meðal annars grunn- og leikskóli og hverfisgarður. Sjá má fyrir sér að gönguleið skólabarnanna framhjá pálmatrjánum yfir á tangann og heim aftur verði gefandi og skemmtileg.

Hugmyndin að tillögunni er einföld en djörf og frumleg og útfærslan sterk og sannfærandi. Í stað þess að líkja eftir nálægri náttúru kallast verkið á við náttúruna úr annarri átt. Tillagan gerir ráð fyrir að hægt verði að skipta pálmatrjánum út fyrir önnur tré, til að mynda japönsk kirsuberjatré, eftir 10 til 15 ár óski íbúarnir þess. Það er kostur að íbúarnir öðlist þannig beina hlutdeild í þróun verksins.“

Karin Sander er fædd í Þýskalandi árið 1957. Hún er á meðal þeirra listamanna sem sett hafa svip sinn á alþjóðlega samtímalist með verkum sem bæði hafa verið sýnd á viðurkenndum sýningarstöðum og sett upp í almenningsrými. Listaverk hennar einkennast af samtali við umhverfið, sögu staða og samfélagslega tengingu. Á ferli sínum hefur Karin Sander hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og eru listaverk hennar í eigu alþjóðlegra safna. Hún hefur unnið fjölda stórra verka, bæði tímabundin og varanleg verk í almenningsrými. Karin Sander er búsett í Berlín en hefur verið tíður gestur hér á landi allt frá 1993, og hefur átt verk á fjölda sýninga víða um land.

Auk vinningstillögunnar lagði dómnefnd til að Reykjavíkurborg festi jafnframt kaup á Endless Lamppost, tillögu danska listamannahópsins A Kassen.

Í umsögn dómnefndar segir: „Endless Lamppost er skemmtileg tillaga þar sem lagt er til að einn 30 metra ljósastaur komi í stað venjulegs staurs við einhverja götu eða torg í Vogabyggð. Verkið er óður til verka Constantin Brancusi Endless Column og vísar því í listasöguna um leið og tillagan vekur upp spurningar um af hverju borgin lítur út eins og hún gerir. Tillagan er húmorísk og bætir ljóðrænni vídd í hversdaginn í þessu nýja hverfi. Við vissar aðstæður getur ljósið á þessum háa staur verið eins og stjarna yfir byggðinni.“

A Kassen er samstarfsverkefni dönsku listamannanna Christian Bretton-Meyer, Morten Steen Hebsgaard, Søren Petersen og Tommy Petersen. Hópurinn hefur starfað frá árinu 2004 og hafa verk þeirra verið sýnd víða á alþjóðlegum vettvangi. List þeirra er gáskafull, lúmsk og opnar fyrir óvæntar upplifanir af umhverfi og menningu. Listaverk eftir þá hafa verið sett upp í almenningsrými víða í Evrópu, mest á Norðurlöndunum.

Í deiliskipulagi Vogabyggðar kemur fram að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu. Það er í samræmi við stefnu borgaryfirvalda og hluti af samningsmarkmiðum við núverandi lóðahafa á svæðinu. Fjárhæð sem verja á til kaupa á listaverki eða listaverkum nemur 140 milljónum króna og er verkefnið kostað sameiginlega af Reykjavíkurborg og lóðaeigendum í Vogabyggð.

Samkeppnin var haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) – lokuð samkeppni með opnu forvali. 165 myndlistamenn lýstu yfir áhuga á þátttöku í samkeppninni, en forvalsnefnd valdi úr innsendum umsóknum átta listamenn eða hópa til að taka þátt í lokuðum hluta samkeppninnar. Samkeppnin var auglýst alþjóðlega og bárust 70% umsókna í forvalshluta frá listamönnum búsettum erlendis.

Þeir listamenn sem valdir voru til þátttöku í samkeppninni voru listamannahópurinn A Kassen, Alicja Kwade, Carl Boutard, Elín Hansdóttir, Finnbogi Pétursson, Karin Sander, Rósa Gísladóttir og Tomás Saraceno. Þessum listamönnum var falið að skila inn einni til tveimur tillögum hver, en jafnframt var heimilt er að skila tveimur útgáfum af sömu tillögu. Alls bárust þrettán gildar tillögur.

Í dómnefnd sátu Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður dómnefndar, Signý Pálsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri menningarmála hjá Reykjavíkurborg, Ólöf Nordal, myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands, auk myndlistarmannanna Baldurs Geirs Bragasonar og Ragnhildar Stefánsdóttur.

Í forvalsnefnd sátu Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og formaður forvalsnefndar, Elsa Yeoman, þáverandi formaður Menningar- og ferðamálaráðs og Elísabet Brynhildardóttir, myndlistarmaður.

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkum í Reykjavík og stendur að baki samkeppninni.

RELATED LOCAL SERVICES