Laugardagurinn 15. apríl er lokadagur sýningar Þórunnar Báru Björnsdóttur Foldarskart í Gallerí Fold við Rauðarárstíg. Sýningin hefur hlotið afar góðar viðtökur og mikla aðsókn. Þórunn Bára verður með áhugavert listamannaspjall um verk sín á laugardaginn kl. 14. Hlökkum til að sjá ykkur.
Þórunn Bara Björnsdóttir (1950) hefur verið virk í íslensku listalífi undanfarna tvo áratugi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá College of Art í Edinborg og með meistargráðu frá Wesleyan University í Bandaríkjunum. Þórunn Bara er meðlimur í Félagi íslenskra myndlistarmanna og hefur haldið sýningar á hverju ári, ýmist hérlendis eða erlendis. Foldarskart er fjórða einkasýning Þórunnar Báru í Gallerí Fold.
Í list sinni veltir Þórunn Bára m.a. fyrir sér hvers virði náttúran er?
“Málverkunum mínum er ætlað að lyfta upp fegurðinni í náttúrunni umhverfis okkur, í þeim tilgangi að vekja áhorfandann til umhugsunar um gildi náttúrunnar og þær lífsnauðsynlegu gjafir sem hún færir okkur. Við tilheyrum náttúrunni. Án hennar værum við ekki hér á jörðinni, okkar eina samastað. Náttúran hefur allt sem við þörfnumst til að við getum átt kost á heilbrigðri sál í heilbrigðum líkama í sátt við menn og dýr.
Náttúran býr yfir öflum bæði til góðs og ills, öflum sem við höfum litla stjórn á. Með hugsunarleysi og græðgi höfum við orðið völd að margvíslegum skaða sem hefur á margan hátt aukið hraða hlýnunar jarðar sem nú stefnir í óefni fyrir komandi kynslóðir.
Fegurð náttúrunnar er sterkt afl sem hefur umtalsverð og jákvæð áhrif á okkur mennina.
Fegurðin býr ekki eingöngu í hinu stórbrotna heldur einnig í hinu smáa og hversdaglega og í þeim margbreytileika sem okkur yfirsést í erli dagsins, og sem við gefum okkur sjaldnast tíma til að skynja þannig að það verði hluti af reynsluheimi okkar. Fegurðin getur stuðlað að viðhorfsbreytingum og verið hvati til góðra verka. Í grundvallaratriðum höfðar listin til tilfinninga en staðreyndir til vitsmuna. Hvoru tveggja er nauðsynleg forsenda upplýstra ákvarðana, ekki síst til að varðveita lífsskilyrðin á jörðinni.
Nafn sýningarinnar, FOLDASKART, vísar til þeirra fjölmörgu plöntutegunda sem hafa náð bólfestu á Íslandi við mismunandi búsetuskilyrði frá því að síðasta kuldaskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum eftir að hafa staðið í 2,6 milljónir ára. Gróður, sem nú klæðir og skreytir fold er síbreytileikanum undirorpin, eins og allt sem lifir.”
Sýningin stendur til 15. apríl.
Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg mán-fös 10 – 18 og laugardaga 10 – 16.