Fiskreitur

People at work at the fish-drying grounds in Kirkjusandur

Fiskvinnslufólk við störf á stakkastæði Th. Thorsteinsonar á Kirkjusandi um 1910. (Ljósmynd: Magnús Ólafsson)

Fiskreitir í Reykjavík

Á fyrri hluta 20. aldar voru fiskreitir víða um Reykjavík og á sólríkum sumardögum var borgin skínandi hvít af snjóhvítum fiski. Stórir fiskreitir voru til að mynda á Kirkjusandi og vestur í bæ, við Ánanaust og Þormóðsstaði. Fiskireitir voru einnig nefnd stakkstæði og voru oftast nær manngerðir. Flestir þessir reitir eru nú komnir undir vegi og hús en á Rauðarárholti má finna ummerki um einn slíkan, sem togarafélagið Kveldúlfur, þá stærsta fyrirtæki landsins, notaði. Fiskreiturinn var mest notaður á 3. og 4. áratug 20. aldar en allt fram á 6. áratuginn. Saltfiskverkunarhús Kveldúlfs hf. stóð sunnan við vatnsgeymana á Rauðárholti og voru einnig fiskreitir þar í víða um kring.

Fiskur, oftast þorskur, var saltaður til að hann geymdist betur. Salti var stráð á nýjan fisk og það dró til sín vatn úr fiskholdinu, leystist upp og myndaði pækil. Fiskurinn var fyrst saltaður í stæður og síðan var oftast umsaltað áður en byrjað var á vöskun og þurrkun. Þurrkunin fór fram á fiskreitum, eins og þeim sem hér má sjá, og tók fjórar til sex vikur. Fiskurinn var lagður ofan á grjót eða litlar trégrindur. Hann var þar allan daginn ef veður var gott en á kvöldin var honum hlaðið í stakk og segldúkur breiddur yfir. Eins þurfti að taka hann strax saman ef það gerði rigningu. Saltfiskvinnslan stóð vanalega frá vori til hausts og var það vinnustaður fjöldi kvenna, karla og barna. Stöðug aukning var á framleiðslu saltfisks allt fram undir 1930. Með stóraukinni frystingu fisks á 5. áratug tuttugustu aldar dróst framleiðslan þó mjög saman. Helstu markaðir saltfisks erlendis eru Spánn og Portúgal. Suðaustan af reitnum við Rauðárholt stendur Sjómannaskólinn sem var vígður 13. október 1945 en skólann teiknuðu húsameistararnir Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson. Í turni skólahússins er innsiglingarviti fyrir Reykjavík. Sunnan við reitinn stendur Háteigskirkja sem var vígð 19. desember 1965 en hana teiknaði Halldór H. Jónsson arkitekt.

Children working on the fish-drying ground at Rauðarárholt

Börn við vinnu á saltfiskreitnum á Rauðarárholti sumarið 1954. Hús við Stangarholt í bakgrunni. (Ljósmynd: Helga Fietz)

Fish-drying grounds by Mýrargata

Saltfiskútbreiðsla á stakkstæði Alliance hf við Mýrargötu um 1930. Í bakgrunni sést í fiskvinnsluhús Alliance hf, byggt 1925. Fjær er Grandagarður og Örfirisey. (Ljósmynd: Magnús Ólafsson)

The Collage of Navigation / Sjómannaskólinn

Sjómannaskólinn í byggingu, um 1944. (Ljósmynd: Sigurhans Vignir)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is