Bókaútgáfan Sæmundur

Um Bókaútgáfuna Sæmund

Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi er hluti af rekstri hlutafélagsins Sunnan 4 ehf sem stofnað var um rekstur Sunnlenska fréttablaðsins í ársbyrjun 1992. Félagið seldi blaðið fyrir tæpum áratug en hefur frá sama tíma einbeitt sér að rekstri sem tengist bókum og verslun Bókakaffinu sem rekin er af sama félagi.

Ennfremur er félagið með umfangmikla netverslun með nýjar og notaðar bækur en meginhluti veltu er þó vegna bókaútgáfunnar sem hefur farið ört vaxandi síðustu ár.

Félagið gaf fyrst út bók árið 2001 og þá undir merkinu Sunnlenska bókaútgáfan en merki forlagsins var breytt árið 2010.

Sæmundur hefur undanfarið ár gefið út 15-20 bækur á ári um aðskiljanleg efni; fagurbókmenntir, fræðirit, barnabækur og margskonar afþreyingu. Þá hefur útgáfan komið lítillega að útgáfu hljóðdiska.

Með því að útgáfan er hluti af rekstri bókaverslunar hefur það verið meðvituð stefna að útgáfuefni sé fjölbreytilegt og ekki einskorðað við eina tegund bóka.

Af einstökum fræðiverkum útgáfunnar má nefna þjóðsagnasafn Helga Hannessonar, bókina Mennina með bleika þríhyrninginn eftir H. Heger, Mjólk í mat og Sýnisbók safnamanns eftir Þórð Tómasson, Teikningar Kristínar frá Keldum, Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp í mikið aukinni og mjög fræðilegri útgáfu og að síðustu þýðingar Guðmundur J. Guðmundsson á Konungasögum Þjóðreks munks og Réttinum til letinnar eftir Paul Lafargue.

Í heildina eru bókatitlar félagsins liðlega 70 talsins.

Eigendur Bókaútgáfunnar Sæmundar eru hjónin Elín Gunnlaugsdóttir og Bjarni Harðarson á Selfossi.

RELATED LOCAL SERVICES