Listasafn Íslands – Hugsun um teikninguna

Kjarvalsteikningar í listaverkasafni Ingibjargar Guðmundsdóttur og
Þorvaldar Guðmundssonar – Hugsun um teikninguna
17.6.2023 — 1.10.2023

Í listaverkasafni Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar er að finna um 300 teikningar og önnur verk á pappír eftir Jóhannes S. Kjarval. Við val verka á sýningunni – sem spannar allan feril listamannsins og helstu viðfangsefni hans, mannamyndir, landslags- og náttúrutengd verk og fantasíur – var fjölbreytni í efnisvali og efnistökum höfð að leiðarljósi. Sýnd eru myndverk sem unnin voru með blýanti, bleki, penna, koli, krít, vaxlit, vatnslit og olíulit á ýmis konar undirlag.

Teikningin er samofin öllu höfundarverki Kjarvals og er raunar miðlæg í tjáningu hans og þeirri skapandi hugsun og könnun á veruleika og hugarheimum sem í henni er fólgin. Kjarval var með eindæmum drátthagur og gerði sér snemma grein fyrir mikilvægi teikningarinnar og nánum tengslum hennar við skynjun, sköpunarferlið og hið innra líf. Hann var óþreytandi við tilraunir með ólík efni og aðferðir, Fyrir honum var teikningin síkvik leið til að nema og tjá umhverfið, knýja fram ný form og hugmyndir, fanga streymi minninga og hugarflugs og til að vinna úr áhrifum frá ólíkum liststefnum. Í teikningunni hugsar Kjarval upphátt.

Í verki frá 1944 sem nefnist Hugsun um teikninguna hefur Kjarval skrifað í neðra vinstra horn myndarinnar: „Í teikningunni er hugsun um teikninguna hvort rjett eða rangt sje teiknað“. Á myndinni, sem einkennist af flæðandi línuspili, sjást mannverur í óræðu landslagi. Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur hefur bent á að vangaveltur Kjarvals tengist hugmyndum um það hlutverk listamanna að beita innsæi sínu til að túlka veruleikann, fremur en að líkja eftir honum, og varpa þannig ljósi á það sem öðrum er hulið. Eða eins og breski fagurfræðingurinn John Ruskin orðaði það: „Sumir sjá aðeins það sem er til, aðrir sjá það sem ekki er til eða virðist ekki vera til. Ef sumir sjá þetta sem ekki virðist vera til í raun og veru, er rétt af þeim að teikna það.“ Sjálfur sagði Kjarval í blaðaviðtali snemma árs 1945:

Heyrðu! Þú mátt segja frá mér, að þó að fólki finnist kannske að myndir mínar séu hugmyndir, þá er það öðru nær en svo sé. Ef satt skal segja, þá er það svo ótrúlegt sem maður sér í landslaginu á stundum. Hverjum myndakomponista myndi reynast það mjög erfitt að sanna sér, að hann væri fremur að gera réttara út frá hugmynd sinni, heldur en það sem hann skapaði eftir sjón sinni á landslaginu – og reyndi að eftirlíkja því. Sjón er alltaf sögu ríkari – og hún verður alltaf merkilegri en það sem listamaðurinn gæti hugsað sér. Ef eitthvað er rétt eða rangt í því að búa til myndir, þá væri ég engu nær undir vissum kringumstæðum, hvort ég ætti að teikna það sem ég sé með mínum veraldlegu augum, eða eitthvað sem mér dytti í hug um leið og ég sæi.

Að baki næmri og síkvikri teikningunni í verkum Kjarvals – allt frá pennakroti á pappírssnifsi til fágaðrar línuteikningar í olíumálverki – býr frjór samsláttur sjónar og hugsunar þessa einstæða listamanns.

Sýning þessi er liður í skráningu á listaverkasafni Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar, sem afhent hefur verið Listasafni Íslands til framtíðarvörslu. Unnið er að því að koma verkunum á stafrænt form í gagnagrunni sem verður almenningi aðgengilegur.

RELATED LOCAL SERVICES