Margpóla

Anna Rún Tryggvadóttir beinir sjónum að miklum en ósýnilegum kröftum jarðsegulmagnsins og hinu síflakkandi segulnorðri. Verkin á sýningunni eru hluti af stærri, yfirstandandi rannsókn hennar á jarðfræði og áhrifum efnislegra lögmála á umhverfið. Ljóðræn könnun Önnu Rúnar birtist í teikningum og skúlptúr sem leiðar til dýpri skilnings á mannhverfu sjónarhorni okkar á heiminn.

Í miðju sýningarinnar rekst áhorfandinn á skúlptúrinn Derailing (Afvísun), upprétta nál úr áttavita sem flöktir til ýmissa átta. Rauði liturinn á nálinni er sá sami og er í segulnál áttavitans. Reipið, sem til skiptis hringast upp og fellur niður, vísar í sæfaramenningu Íslendinga og sjávarútveg; rauður er ennfremur tákn um hættu.

Í innsetningunni er líka röð vatnslitamynda sem byggja á ýmsum útreiknuðum staðsetningum segulskauta jarðarinnar síðustu 16 milljón árin – sláandi afhjúpun á hreyfingum jarðsegulmagnsins í gegnum jarðsöguna. Í sumum þessara verka snýr Anna Rún kortunum til að breyta stöðu norðursins. Kort eru í eðli sínu sett upp miðað við það sjónarhorn sem kortagerðarmaðurinn leggur áherslu á. Við erum vön hefðbundnu vestrænu sjónarhorni þar sem norður er sýnt efst. Þetta orsakast mögulega af því að í upphafi var siglt eftir stjörnunum, sérstaklega Pólstjörnunni, og horft til himins. Hins vegar er staðsetning norðursins eintómur tilbúningur: jörðin flýtur í tómarúmi í geimnum og þar eru engar höfuðáttir.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

RELATED LOCAL SERVICES