Árbæjarsafn

Um Árbæjarsafn

Árbæjarsafn er útisafn sem er opið allan ársins hring. Þar er safn gamalla húsa sem flest hafa verið flutt á safnsvæðið úr miðbæ Reykjavíkur. Svæðið skiptist í torg, þorp og sveit og gefur góða mynd af umhverfi og bæjarbrag í Reykjavík á 19. og 20. öld

Árbær var rótgróin bújörð allt fram á 20. öld og hafði lengi verið áningarstaður fólks á leið til og frá Reykjavík. Býlið fór í eyði undir 1950. Árið 1957 samþykkti bæjarráð Reykjavíkur að þar skyldi gamli bærinn endurbyggður og komið upp safni gamalla húsa, sem hefðu menningarsögulegt gildi. Safnið var opnað strax þá um haustið.Fyrsta flutningshúsið, Smiðshús, var flutt þangað árið 1960. Ári síðar kom Dillonshús. Flest húsin hafa verið flutt úr miðbæ Reykjavíkur.

Í Árbæjarsafni er leitast við að gefa hugmynd um byggingalist og lifnaðarhætti í Reykjavík og á sumrin má þar sjá húsdýr og mannlíf fyrri tíma.Í safninu er boðið upp á fjölda sýninga og viðburða, þar sem einstökum þáttum í sögu Reykjavíkur eru gerð skil. Þar má nefna handverksdaga, fornbílasýningu, jólasýningu og margt fleira. Árbæjarsafn er tilvalinn staður fyrir fjölskylduna að eyða part úr degi enda nóg við að vera fyrir börn sem fullorðna.

Hér má sjá upplýsingar um sögu hvers húss fyrir sig. 

Saga Árbæjarsafns

Minjasafn verður til 

Um miðja 20. öld tóku æ fleiri bæjarbúar að leiða hugann að því með nokkurri eftirsjá að „hin gamla Reykjavík“ væri að hverfa og myndi ekki koma aftur. Hreyfing komst fyrst á málefni minjasafnsins árið 1942 þegar bæjarstjórn Reykjavíkur barst skrifleg áskorun um stofnun þess. Áskoruninni var vel tekið og henni vísað til umsagnar Reykvíkingafélagsins, sem var einskonar átthagafélag höfuðstaðarins. Um þetta leyti hófst söfnun á gögnum um sögu bæjarins og varð það grundvöllur að skjalasafni þess.

Næst bar það til tíðinda að árið 1945 keypti Reykjavíkurbær 118 málverk og teikningar eftir Jón Helgason biskup (1866-1942). Árið 1947 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur síðan að stofna Bæjarsafn Reykjavíkur og efna til bæjarsýningar. Reykjavíkursýningin var haldin í hinu nýbyggða húsi Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu árið 1949. Af því tilefni var efnt til fyrsta söfnunarátaksins á reykvískum forngripum.
Þetta varð til þess að árið 1954 var Skjala- og minjasafn Reykjavíkur formlega stofnað. Því var fengið húsnæði að Skúlatúni 2. Lárus Sigurbjörnsson var ráðinn forstöðumaður þess og hóf hann söfnun forngripa af margvíslegu tagi.

Upphaf Árbæjarsafns 

Um svipað leyti var gamla býlið, Árbær, sem lengi hafði verið áningarstaður fólks á leið til og frá Reykjavík, komið í eyði og bæjarhúsin illa farin vegna skemmdarverka og veðra. Árið 1957 samþykkti bæjarráð að þar skyldi gamli bærinn verða endurbyggður og komið upp safni gamalla húsa, sem hefðu menningarsögulegt gildi. Safnið var opnað strax þá um haustið. Fyrsta verkefni Árbæjarsafns var að endurbyggja Árbæinn. Fyrsta flutningshúsið, Smiðshús, var flutt þangað árið 1960. Ári síðar kom Dillonshús. Í dag eru yfir 20 hús á safnsvæðinu.

Sameining Minjasafns og Árbæjarsafns

Árið 1968 voru Minjasafn Reykjavíkur og Árbæjarsafn sameinuð undir nafni hins síðarnefnda. Þá var einnig samþykkt í borgarstjórn að koma á fót embætti borgarminjavarðar og var fyrst ráðið í það starf 1974. Fyrsti borgarminjavörðurinn var Nanna Hermansson (1974-1984), síðan tók Ragnheiður Þórarinsdóttir (1984-1989) við, þriðja í röðinni var Margrét Hallgrímsdóttir (1989-2000) og þá Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2000-2014). Í maí árið 2006 opnaði Landnámssýningin í Aðalstræti 16.  Þungamiðja sýningarinnar er skálarúst frá 10. öld, sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu.

Þegar Árbæjarsafn var stofnað, 1957, var það spölkorn fyrir utan byggðina í Reykjavík. Síðan hefur borgin stækkað umtalsvert og nær nú langt út fyrir safnið. En þrátt fyrir bæði Höfðabakkabraut í austri og íbúðabyggð í norðri er landrými ennþá allnokkuð. Einnig nýtur safnið góðs af nálægðinni við Elliðaárdalinn, það gróskusama og víðáttumikla útivistarsvæði. Raunar er aðdáunarvert hve framsýnir frumkvöðlar Árbæjarsafns hafa reynst í flestu tilliti. Þróunarmöguleikar safnsins virðast óþrjótandi um langa framtíð

Borgarsögusafn Reykjavíkur

Borgarsögusafn Reykjavíkur er nýtt sameinað safn í eigu Reykvíkinga sem tók til starfa þann 1. júní 2014 en undir það heyra:  Árbæjarsafn, Landnámssýningin í Aðalstræti, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Viðey. Markmið sameiningarinnar er að efla starfsemi safnsins svo þjóna megi fjölbreyttum hópi safngesta enn betur.

 

 

 

RELATED LOCAL SERVICES