Gunnlaugur P. Blöndal listmálari

Vala Ásgeirsdóttir forsætisráðherrafrú í stuttu spjalli við Vikuna

Mynd sem Gunnlaugur Blöndal málaði af Völu 18 ára gamalli eða um það leyti sem hún trúlofaðist Gunnari. Sjá meira hér

LJÓMI LITANNA
Myndlist: Eiríkur Þorláksson
Þegar menningarmál eru annars vegar er sjaldan minnst á að íslendingar eru langt frá því að vera samstæður hópur hvað varðar aðstæður til að njóta þess sem er efst á baugi hverju sinni. Þar koma ekki aðeins til mismunandi aðstæður einstaklinga í uppeldi og menntun, heldur ekki síður kynslóðaskipti; það sem
einni kynslóð kann að vera almenn þekking, er hinni næstu ef til vill hulinn leyndardómur. Einnig kann ákveðinn aldurshópur að vera háður aðstæðum og fordómum liðinna tíma, sem yngra fólk þekkir ekki og hefur því enga ástæðu til að setja fyrir sig. Sjá meira hér

Gunnlaugur P. Blöndal listmálari

Gunnlaugur Pétur Blöndal var fæddur á Sævarlandi í Þistilfirði, N-Þing., 27. ágúst 1893, sonur hjónanna Björns Gunnlaugssonar Blöndal, læknis þar og síðar á Hvammsstanga, og Sigríðar Möller.

Gunnlaugur hóf myndskurðarnám árið 1909 hjá Stefáni Eiríkssyni og lauk þar prófi með ágætiseinkunn 1913. Fór svo til náms sama ár í Det Tekniske Selskabs Skole í Kaupmannahöfn og lagði þar stund á málaralist, en síðar, 1916-18, við listaháskólann í Osló (Statens Kunstakademi). Naut hann þar tilsagnar Christians Krogh, sem þá var einn frægasti málari Norðmanna. Gunnlaugur fór námsferðir til Ítalíu, Spánar og Þýzkalands og dvaldist sex ár í París við liststörf og nám (1923 í Académie André Lhote og 1924-1929 hjá Fernand Léger). Hann er viðurkenndur sem einn af beztu íslenzkum listmálurum sinnar samtíðar, þekktur fyrir landslagsmyndir sínar frá Íslandi, portrettmyndir og málverk af módelum, sem oft einkennast af gáskafullri munúð og litagleði. Alkunn er myndin Stúlka með greiðu, 1937. Hann átti þátt í því að flytja hingað alþjóðlega strauma á 3. og 4. áratugnum. Málverk hans hafa verið keypt af frægum söfnum, t.d. Musée de Luxembourg í París, Musée d’art Moderne de la Ville de Paris og Nationalmuseet í Stokkhólmi, og eru í mörgum almenningssöfnum á Íslandi. Gunnlaugur hélt fjölda málverkasýninga utan lands og innan. Fyrsta einkasýning hans var hjá KFUM í Reykjavík 1922, síðan samsýning í Salon d’Automne í París 1925, þá einkasýningar í Galerie Billiet í París 1926 og 1932, í Reykjavík einnig þau sömu ár, Kaupmannahöfn 1927, 1930, 1934 og 1937, í Óðinvéum og Stokkhólmi 1938 og í Barcelona 1951. Hann tók þátt í listsýningum víðar, t.d. í Tokyo 1926, í Þýzkalandi, Gautaborg, Björgvin, Osló, Árósum, Helsinki, Bruxelles, Kiel og Lübeck. Árið 1961 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni Íslands. Gunnlaugur andaðist í Reykjavík 28. júlí 1962. Árið 1993 var haldin sýningin Gunnlaugur Blöndal, aldarminning, í Listasafni Reykjavíkur að Kjarvalsstöðum. Helgafell gaf út bók með litmyndum af málverkum hans 1963, með formála eftir Eggert Stefánsson og grein eftir Tómas Guðmundsson. Þá gaf Listasafn Íslands út bók um hann 1993; sjá einnig ritið Gunnlaugur Blöndal listmálari 1893-1963 (Sigríður Bjarnadóttir, Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, 2001).

Fyrri kona Gunnlaugs (1926) var Inger Löchte listmálari, dóttir yfirlæknis í Árósum. Þau skildu, en áttu einn son, Björn yfirlækni í Noregi. Seinni kona hans (1946) var Elísabet Jónasdóttir, kaupmannsdóttir úr Reykjavík. Þau voru barnlaus, og giftist hún síðar Kristjáni Karlssyni, skáldi og bókmenntafræðingi.

Jón Valur Jensson ættfræðingur tók saman.

Heimildir:
Íslenzkar æviskrár VI, 186.
Hver er maðurinn II, 372.
Blöndalsættin, 270, 275-6.

Sja umfjallanir um aðra listamenn sjá hér

RELATED LOCAL SERVICES