Þorleifur Friðriksson

Þorleifur Friðriksson
Hulduþjóðir Evrópu

Evrópa er samfélag fjölda þjóða sem margar hverjar búa í sambýli við stærri og voldugri þjóðir. Sumar af þessum þjóðum þekkja flestir, t.d. Sama. Færri vita um tilvist margra þeirra, eins og t.d. Rútena, Husula og Bojka. Í gegnum aldirnar hafa landamæri færst til á meðan þessar þjóðir hafa lifað áfram, oft í skugga fjandsamlegra yfirvalda eins og óhreinu börnin hennar Evu.

Hér er lesendum boðið í heillandi ferðalag um Evrópu þar sem hátt í fjörutíu hulduþjóðir eru heimsóttar og fjallað á aðgengilegan og lifandi hátt um sögu þeirra, sem oft og tíðum er allt að því reyfarakennd, og menningu sem stundum er gjörólík því sem ríkir í viðkomandi löndum. Yfir og allt um kring er svo átakamikil saga Evrópu.

Þorleifur Friðriksson er doktor í sagnfræði og eftir hann liggja ýmis rit, m.a. saga Verkmannafélagsins Dagsbrúnar. Þorleifur hefur í áraraðir ferðast um slóðir hulduþjóða í Evrópu og kynnst menningu þeirra og sögu.

Hulduþjóðir Evrópu er 405 blaðsíður að lengd. Eyjólfur Jónsson sá um umbrot og hönnun innsíðna, Jón Ásgeir hannaði kápuna. Bókin er prentuð hjá ScandBook, Svíþjóð.

 

 

Hvað er athyglisvert við hulduþjóðir?

„Að uppgötva að eitthvað er til sem maður hefur ekki haft hugmynd um – að það skuli vera aðrar þjóðir í Evrópu en Bretar, Frakkar og Þjóðverjar og svo framvegis. Við lifum á tímum mikilla breytinga hvað varðar fólksflutninga. Sannleikurinn er sá að þetta er ekkert nýtt. Evrópa hefur aldrei staðið í stað. Þjóðir hafa komið og farið og landamæri hafa tekið breytingum. Þess má geta að nútíma landamæri eru mjög ungt fyrirbæri. Það sem hefur fylgt Evrópubúum eins og öðrum sem tilheyra mannkyni er íhaldssemi og þörf fyrir öryggi. Af þeim orsökum hefur fólk flúið á milli staða til að komast í skjól eða öðlast betri lífskjör. Þegar ein þjóð kemur að þar sem önnur þjóð er fyrir þá verður eitthvað undan að láta – annað hvort samlagast nýja fólkið hinu sem fyrir var eða jafnvel að önnur þjóðin hverfur. Þannig fór til dæmis með hina fornu þjóð Prússa sem þýskir krossriddarar útrýmdu á þremur öldum. Þetta gerðist á fyrri hluta þrettándu aldar fram á hina sextándu. Það er kaldhæðni sögunnar að nafn þeirrar þjóðar sem hvarf festist á hinni sem tók við landi hennar – hinir þýsku Prússar tóku við af hinum baltensku Prússum. Úr viðtali Guðrúnar Guðalugsdóttir í Morgunblaðinu við Þorleif Friðriksson, lesa meira hér 

Hulduþjóðir Evrópu

Mikill fengur er einnig að afar fróðlegri bók Þorleifs Friðrikssonar Hulduþjóðir Evrópu – Ferð um framandi samfélög frá 2016. Þorleifur fer aðra leið. Hann dásamar fjölbreytni álfunnar með því að segja ævisögur 33ja evrópskra smáþjóða. Sumar þessara þjóða þekkjum við, t.d. Sama í nyrztu byggðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Við þekkjum einnig Bretóna og Korsíka í Frakklandi og Frísa sem ná meðfram ströndinni frá Hollandi um Þýzkaland til Danmerkur. Mörg okkar hafa þó aldrei fyrr heyrt getið t.d. um Fríúla, Sára, Kimbra og Ladína, fjórar smáþjóðir á Norður-Ítalíu og í Alpafjöllum. Allt eru þetta þjóðir eins og við, stoltar af sögu sinni, tungu og menningu, og berjast sumar fyrir auknu sjálfstæði líkt og við þurftum að gera, en þó yfirleitt af minni ákefð nú en áður. Á móti kemur aukin rækt við eigin þjóðtungur sem eflast margar frekar en að fjara út.

Þessi smálönd eiga það sammerkt að fólkið sem byggir þau er yfirleitt hlynnt Evrópusambandinu, m.a. vegna þess að sambandið býður vernd. Þorleifur lýsir þessu vel í kaflanum um Bretóna. Þjóðernisflokkur Bretóna setti fram strax 1928 hugmyndina um evrópskt sambandsríki. Þorleifur segir (bls. 144): „Rökin á bak við hugmyndina voru þau að aðeins innan slíks sambandsríkis væri hægt að standa vörð um réttindi minnihlutahópa.“ Hann bætir við: „Á Íslandi voru hugmyndir af þessum toga viðraðar í blaðinu Dagsbrún, málgagni jafnaðarmanna, undir ritstjórn Ólafs Friðrikssonar. Ólafur gekk reyndar ekki svo langt að vilja sameina Evrópu … Hann lét sér nægja að dreyma um sameinuð Norðurlönd.“ Þetta var 1917.

Um Fríúla segir Þorleifur (bls. 170): „Meginástæða þess að trúin á Evrópusambandið er svo almenn er líklega sú að hagsmunum Fríúla verði best borgið undir hlíf sameinaðrar Evrópu. Með því losni þjóðin að nokkru leyti úr klóm landlægrar ítalskrar spillingar og óskilvirks skrifræðis.“ Kannast nokkur við það? Fríúlar byrjuðu að skrifa bækur á 12. öld, á undan Íslendingum. Þeir eru þrefalt fleiri en við. Tungan hefur bundið þá saman. Land þjóð og tunga: Kannast nokkur við það?  Saga skiptir máli Þorvaldur Gylfason skrifar Sjá  meira hér 

Þjóð án ríkis
Karl Blöndal skrifar um bækur í Morgunblaðinu sjá meira hér

RELATED LOCAL SERVICES