Lawrence Weiner & Birgir Andrésson

Lawrence Weiner & Birgir Andrésson
Fyrri hluti: 30. mars – 13. maí 2023
Seinni hluti: 25. maí – 1. júlí 2023

i8 kynnir sýningu í tveimur hlutum með verkum Birgis Andréssonar (1955-2007, Ísland) og Lawrence Weiner (1942-2021, Bandaríkin). Fyrri hluti sýningarinnar mun standa yfir frá 30. mars – 13. maí en seinni hlutinn verður 25. maí – 1. júlí. Birgir sýndi fyrst í i8 gallerí árið 2000 og Lawrence árið 2005; báðir listamenn spila veigamikið hlutverk í sögu gallerísins og hafa veitt samlistafólki sínu í i8, og víðar, mikinn innblástur. Á sýningunni verða innsetningar, skúlptúrar, málverk og verk á pappír eftir Birgi og Lawrence. Sérhvert verk sýningarinnar undirstrikar hina fjölbreyttu miðla og tímabil sem einkenna starfsferil listamannanna tveggja.

Tungumálið er kjarni sköpunarferils Lawrence og Birgis. Báðir listamennirnir, sem einnig voru vinir, tengjast mætti orðanna órofa böndum og nota þau sem tjáningaraðferð, sér í lagi með því að leita í sjónrænt afl textans. Birgir og Lawrence rannsökuðu takmörk listarinnar með því að teygja sig út fyrir hefðbundnar hugmyndir um eðli hluta í rými og áhorfandann og sköpuðu þannig nýjar leiðir til tjáningar. Með tilvistar- og heimspekilegum hugleiðingum þróuðu báðir listamennirnir einstakar aðferðir við listsköpun sem bergmáluðu á alþjóðagrundvelli og breyttu stefnu samtímalistar.

Áhugi Birgis Andréssonar á aðferðum miðlunar magnaðist á uppeldisárunum en Birgir ólst upp hjá blindum foreldrum á blindraheimili. Þar af leiðandi skipuðu lýsingar með orðum mikilvægan sess í lífi Birgis og því þróaði hann með sér aukna næmni fyrir tungumálinu og lýsandi mætti þess. Einnig spilaði kímni og persónu- og þjóðareinkenni stórt hlutverk í listsköpun Birgis en saga Íslands ómar í gegnum allan feril hans. Birgir var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 1995 og er verk eftir hann í safneign Metropolitan Museum of Art í New York. Hann hélt einkasýningar á Listasafni Íslands og árið 2022 var sett upp stór yfirlitssýning af verkum hans á Listasafni Reykjavíkur í sýningarstjórn Robert Hobbs; með yfirlitssýningunni kom út vegleg bók um feril hans sem gefin var út af Distanz Verlag.

Lawrence Weiner helgaði sköpun sinni því að draga viðteknar reglur í efa sem gerði hann að leiðandi persónu konseptlistar á sjöunda áratug síðustu aldar. Myndrænt tungumál grafískrar notkunar á texta í hástöfum, merkjum og línum einkennir myndlist hans og hefur hlotið mikið lof. Lawrence hefur sýnt víða á alþjóðlegum vettvangi þar á meðal í Tate Modern í London; Stedelijk Museum, Amsterdam; Museo Tamayo í Mexíkóborg; Guggenheim Museum í Bilbao; The Jewish Museum í New York og í Museo Nacional Centro de Arte Reina Sofía í Madrid. Stór yfirlitssýning var sett upp á vegum Whitney Museum í New York; The Museum of Contemporary Art í Los Angeles og K12 Kunstsammlung Nordrhein-Westfalen í Dusseldorf á árunum 2007 – 2009.

RELATED LOCAL SERVICES