Málverkasýningin Villigrös eftir Hafú

Málverkasýningin Villigrös eftir Hafú

 

Málverkasýningin Villigrös prýðir veggi Listhúss Ófeigs að Skólavörðustíg 5, dagana 29. júlí til 23. ágúst. Til sýnis verða olíumálverk eftir Hafú en hann er myndskreytir, listmálari og höfundur sem býr og starfar í Reykjavík. Sýningaropnunin verður milli kl. 14 og 16 laugardaginn 29. júlí og allir velkomnir. 

Verkin á sýningunni eiga það öll sameiginlegt að vera raunsæjar og litríkar endurspeglanir af umhverfinu í kringum okkur.  Algeng viðfangsefni eru smágróður, klettar og borgarlandslag með voldugum trjákrónum. Inn á milli má greina menn og huldufólk sem halda áfram sína leið innan um borgar- og náttúrufyrirbrigði þannig að þau eru eins og hluti af umhverfinu frekar heldur en gestir í heimsókn. Titill sýningarinnar, VILLIGRÖS, er tilvísun í heiminn sem skyggnst er inn í mörgum verkanna, gróðurinn og steinana neðst niðri við jörðina þar sem raunverulegar og ímyndaðar verur birtast líkt og í öðrum heimi.  

Þetta er fyrsta einkasýning Hafú í meira en tvo áratugi. Áður hefur hann tekið þátt í 7 samsýningum á Íslandi, í Danmörku, Hong Kong, Hollandi og Kína. Hann hefur einnig fengist við sýningastjórnun. Hann lærði myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavik, Li Po Chun UWC í Hong Kong og Háskólann í Utrecht. Hafú er gælunafn Reykvíkingsins Hafliða Sævarssonar. Hann er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM). 

Hafú hefur einnig fengist við myndskreytingar og ritstörf. Í september 2022 kom út myndskreytta barnabókin Marísól og sjóflugvélin hjá Leó bókaútgáfu. Hann skrifaði bókina og myndskreytti í samstarfi við son sinn. 

Í verkunum á sýningunni er efniviðurinn alltaf í forgrunni. Sú iðn að nota liti, striga og pensla og leyfa hráefninu að njóta sín er megintakturinn. Í upphafi ferilsins gerði Hafú semí-abstrakt fígúratíf verk en síðari ár e.k. töfraraunsæjis borgar- og náttúrulífsmyndir. Landslagi á Norðurslóðum er gjarnan stillt með ímynduðum verum sem birtast líkt og úr öðrum heimi. Eftir um 15 ára búsetu Kína, Hong Kong og Japan með hléum eru merkjanleg áhrif úr austurlenskum bíómyndum, kínverskum blekmálverkum og japönskum teiknimyndum.

Nánar má kynna sér verk Hafú á heimasíðu hans www.haflidi.art eða á íslenska netgalleríinu Appoloart: https://apolloart.is/collections/haflidi-saevarsson-hafu

RELATED LOCAL SERVICES