Reisubók séra Ólafs Egilssonar
Sumarið 1627 hlupu sjóræningjar frá Norður-Afríku á land á nokkrum stöðum á Íslandi og höfðu með sér á fjórða hundrað manns sem ætlunin var að selja í þrældóm. Aðfarirnar voru skelfilegastar á sunnanverðum Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, sem áður voru byggð í blóma en eftir þetta lamaðar í sárum. Meðal hertekinna voru séra Ólafur Egilsson að Ofanleiti og kona hans Ástríður Þorsteinsdóttir, með tveimur barnungum sonum. Sá þriðji fæddist í hafi á leið til Algeirsborgar. Ráðamenn þar afréðu að senda séra Ólaf til Kaupmannahafnar í því skyni að fá konung til að leysa fanga út með fé og var hann allan veturinn á leiðinni.
Grafinn sjóður í sögu Evrópu
Reisubók séra Ólafs Egilssonar og aðrar heimildir um Tyrkjaránið 1627 . Sjá meira hér
Ólafur var 64 ára gamall þegar hann hóf að skrifa söguna árið 1628. Í bókinni rekur Ólafur ferðasöguna frá því fyrst sást til Tyrkjanna við Vestmannaeyjar þar til hann kom aftur heim til Íslands ári síðar. Þá hafði hann verið marga mánuði á ferðalagi um Evrópu en hann var sendur á fund Danakonungs til að freista þess að fá Íslendingana leysta úr ánauðinni. Það gekk ekki og frá Danmörku kom hann heim til Íslands.
Ólafur var fyrstur norrænna manna til að skrifa bók um líf og lífshætti fólks í „barbaríinu“ en svo voru lönd íslams í Norður-Afríku kölluð. Hann var allt í einu kominn inn í nýstárlegan heim sem var gjörólíkur öllu sem hann hafði áður kynnst. Hann sá til dæmis glerglugga í Genúa í fyrsta sinn á ævinni. Veðráttan, umhverfið, maturinn, fólkið, tungumálið og klæðnaðurinn, allt var nýtt fyrir honum og allt vakti þetta athygli hans og hann tók vel eftir öllum hlutum og þykir lýsa þeim vel í bókinni. Einnig eru staðhættir í bókinni álitnir vera nokkuð réttir en þó var eitthvað um að fólk reyndi að villa um fyrir honum og gabba hann.
Meðan Ólafur skrifaði bókina voru kona hans og börnin þrjú enn í ánauðinni. Íbúarnir í Alsír voru múslímar og Ólafur var hræddur um að ástvinir hans létu turnast, eins og það var kallað að skipta um trú. Því má gera ráð fyrir að Ólafur hafi hugsað allt annað en hlýtt til illvirkjanna meðan á skrifum bókarinnar stóð en það vekur athygli að í bókinni lætur hann þá njóta sannmælis. Frásögn hans þykir gædd ótrúlega hlutlægum blæ, er ýkjulaus og án ofstækis. Hann talar ekki bara um það slæma sem „Tyrkirnir“ gerðu heldur getur hann líka þess sem þeir gerðu vel við fólkið og segir til dæmis frá því að þegar yngsti sonur hans fæddist á hafi úti á leiðinni til Alsír þá hafi þeir gefið barninu gamlar skyrtur utan um sig.